149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:30]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Páll Jónsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Páli Magnússyni fyrir prýðisræðu. Hann fór um víðan völl og kom m.a. inn á kvótakerfið sjálft. Þar hjó ég eftir því að þingmaðurinn talaði um síróp. Þá var hann að höfða til þess að einhvers konar byggðafestuvinklar væru í kerfinu til að loka fyrir flóttaleiðir á kvóta út úr byggðarlögum. Ég hjó sérstaklega eftir forkaupsrétti sveitarfélaga en það kom fram í ræðu hans að hann er ónýtur eða virkar ekki.

Fyrir örfáum árum, þegar hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson var sjávarútvegsráðherra í stuttan tíma, setti hann af stað hóp sem átti að vinna með Byggðastofnun að því að koma þessu á einhvern flöt í samtali við lánastofnanir um það hvernig hægt væri að vinna að þessu máli þannig að sveitarfélög og bæjarstjórnir gætu komið að þessu með einhver félög sér til fulltingis. Hugsanlega með lægri vöxtum eða einhverjum hugmyndum, aðgerðum, þannig að þetta væri gerlegt.

Mig langar að spyrja þingmanninn: Hefur þingmaðurinn einhverjar hugmyndir um hvernig hægt væri að nálgast þessa vinnu og hvernig hægt væri að koma þessu á þannig flöt að þetta væri grundvöllur? Ég spyr hvort annaðhvort hann eða hans flokkur hafi einhverja nákvæma hugmynd um hvernig hægt væri að nálgast þetta verkefni.