149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:46]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætla að koma hingað sem upplýsingafulltrúi þeirra sem sátu í þingsal í gær til miðnættis og leiðrétta hv. þingkonu Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur sem talaði um að hér gætum við farið að hrófla við mælendaskrá. Yfirforseti þingsins, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, tilkynnti í gær að ekki yrði hróflað meira við mælendaskrá í þessari umræðu. Þegar við héldum áfram að koma upp og nefndum það sendi hann okkur svo grimmdarlegt augnaráð að það stakk í hnakkann. Það var ekki til umræðu og ég vona (Gripið fram í.) að hv. þingkona Bjarkey ræði við samflokksmann sinn og fái þetta staðfest. Það var alveg á hreinu að ekki yrði hróflað neitt við mælendaskrá í þessari umræðu — og hann var strangur á svipinn þegar hann sagði þetta. (LRM: … seinni.) Í þessari umræðu.