149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:24]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Mig langar að nefna kannski þrjú atriði.

Hv. þingmaður nefndi dagakerfi í strandveiðum. Ef ég man rétt samþykktum við slíkt kerfi fyrir síðasta sumar, 48 daga fyrir smábáta. Ég er nokkuð viss um að hv. þingmaður er ánægð með þá breytingu sem einmitt var ákveðin af meiri hluta — eða bara atvinnuveganefnd allri, jafnvel. Ég horfi á formann atvinnuveganefndar, og í fullkominni sátt atvinnuveganefndar. Það er ekki eins og þetta kerfi sé óbreytanlegt og það verður gott að meta árangurinn af þeirri breytingu.

Síðan vil ég reifa það að hv. þingmaður talaði um meðaltal og afkomutengingu. Ég gat ekki skilið hv. þm. Ingu Sæland betur en að það væri eðlilegt að færa álagninguna nær í tíma. Einhvern veginn þarf hún að vera afkomutengd. En eins og ég skil gagnrýni hv. þingmanns gerir hún athugasemd við það og það sé miðað við meðaltal sjávarútvegsfyrirtækja. Það er vissulega flókið því að sjávarútvegsfyrirtæki borga auðvitað tekjuskatt af sinni starfsemi sem er einstaklingsmiðaður, ef við getum orðað það svo. Þau borga tryggingagjald. En síðan borga þau auðlindagjaldið sem lýtur öðrum lögmálum en hefðbundin skattlagning að því leyti að það inniber líka gjald fyrir aðganginn að auðlindinni og ákveðið hlutfall af auðlindarentunni.

Þetta er fjölbreytt flóra. Við erum með 1.340 skip að veiða fisk. Við erum með 2.400–2.500 veiðileyfi. Þetta er gríðarleg fjölbreytni. Það er erfitt að ákvarða slíkt meðaltalsgjald. Verið er að reyna að koma sérstaklega til móts við litlar og meðalstórar útgerðir, bæði í frumvarpi hæstv. ráðherra og með þeim breytingum sem meiri hluti nefndarinnar hefur gert til að koma til móts við þessi sjónarmið.

En má ég biðja hv. þingmann að skýra fyrir mér hvernig hennar sýn er á það að breyta þessari afkomutengingu? Sér hún þá fyrir sér sérstaka álagningu á tekjuskatt fremur en auðlindagjald?