149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

brottfall laga um ríkisskuldabréf.

210. mál
[14:08]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti hv. efnahags- og viðskiptanefndar er varðar lög um brottfall laga nr. 51 frá árinu 1924, um ríkisskuldabréf. Ég verð að segja það er sjaldan sem maður fær svona ánægjuleg lagafrumvörp í hendurnar, en það gengur út á að afnema þessi ágætu lög.

Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á fund til sín Guðmund Kára Kárason og Sigurð Pál Ólafsson, frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Nefndinni barst umsögn um málið frá Seðlabanka Íslands, en samkvæmt frumvarpinu falla lög um ríkisskuldabréf, nr. 51/1924, úr gildi. Lögin hafa þegar verið leyst af hólmi með lögum um innlenda lánsfjáröflun ríkissjóðs, nr. 79/1983, og lögum um Lánasýslu ríkisins frá árinu 1943.

Eina efnislega reglan í lögunum um ríkisskuldabréf sem ekki er annars staðar í lögum er sú að ríkisskuldabréf skuli ekki gefin út til lengri tíma en 25 ár, samanber 1. mgr. 3. gr. laganna.

Í umsögn Seðlabankans sem sinnir lánaumsýslu ríkissjóðs segir um þetta atriði:

„Þrátt fyrir að núverandi stefna í lánamálum ríkissjóðs geri ekki ráð fyrir að slíkur möguleiki verði nýttur nema sýnt sé að slík útgáfa hafi verulega hagkvæmni í för með sér fyrir ríkissjóð þá mælir Seðlabankinn með brottfalli laga nr. 51/1924 þar sem með því fjölgar kostum ríkissjóðs við skuldastýringu og eykur svigrúm til áhættudreifingar.“

Nefndin gerir ekki athugasemd við brottfall laga um ríkisskuldabréf og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Álfheiður Eymundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið skrifa, auk mín, hv. þm. Óli Björn Kárason, formaður nefndarinnar, Hildur Sverrisdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Ásgerður K. Gylfadóttir, Þorsteinn Víglundsson, Oddný G. Harðardóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.