149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[18:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil til að byrja með þakka hv. þingmanni fyrir vangaveltur um þessi atriði sem hér eru nefnd sem varða verkefnatilflutning og verkaskiptingu og annað þess háttar. Í eldri lögum var gert ráð fyrir því að það væri í meginatriðum lögbundið hvaða verkefni heyrðu til hvaða ráðuneytis og breytingar á því þyrftu að koma til umfjöllunar í þinginu, þar á meðal að fara í gegnum þá opnu umræðu sem því fylgir í nefndarstarfi, umsögnum og umræðum í þingsal.

Ég heyri það á hv. þingmanni að hún hefur áhuga á því að ræða þessi mál og hefur skoðanir á þeim og í ljósi þess þá vil ég spyrja hv. þingmann hvort hún telji að það sé endilega heppilegt að ákvarðanir um þessi efni komi ekkert til meðferðar á þinginu, hvort hún telji að forsætisráðherra eða ríkisstjórn eigi að hafa sjálfdæmi um að taka ákvarðanir um hvaða ráðuneyti eru starfandi í landinu og hver verkefni þeirra eigi að vera, hvort það komi þinginu ekki við og hvort þingið eigi ekki að koma að málsmeðferð í því sambandi með neinum hætti.