149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[18:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get auðvitað ekki annað en tekið undir sjónarmið hv. þingmanns í þessum efnum. Þegar teknar eru ákvarðanir um breytingar að þessu leyti, skiptingu málaflokka, uppskiptingu ráðuneyta og annað þess háttar, þá byggir það auðvitað á einhverri hugmynd eða áformum um áherslur í málaflokkum og annað þess háttar. Ég fer ekki ofan af því að ég held að það sé betra að sinna annars vegar heilbrigðismálunum og hins vegar velferðarmálunum, eins fjölbreytt og þau eru, í tveimur aðskildum ráðuneytum og held að það verði í raun og veru til bóta fyrir báða málaflokkana að fá með þessum skýra hætti sérstök ráðuneyti sem sinna þessum efnum. Í framhaldi af þeirri umræðu sem átti sér stað áðan þá held ég að sá kostnaður muni koma til baka sem menn leggja í að þessu leyti.