149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:04]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið enda sé ég að fólk er orðið þreytt á henni. Ég held samt að við séum að setja einhvers konar met í að vera hér í 3. umr. fjárlaga og það er bara 5. desember. Ég fór ágætlega yfir hug minn til þessa fjárlagafrumvarps í ræðu minni undir 2. umr. og get tekið undir margt sem kom fram í ræðu hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, sem var hér á undan mér, þó að ég kynni nú kannski að vilja sjá örlítið meiri aðhald í sumum málaflokkum. Ég tek heils hugar undir það að þetta eru sóknarfjárlög og við höfum náð ótrúlegum árangri á síðustu árum í að snúa ríkissjóði við. Það er margt sem ber að þakka í því sambandi, m.a. það að við höfum haldið fast utan um ríkisfjármálin. Við höfum verið verulega dugleg í að greiða niður skuldir og það mun koma sér virkilega vel.

En mér fannst ég ekki geta látið 3. umr. líða hjá öðruvísi en að nefna tvö atriði. Fyrst vil ég nefna það sem kom fram í máli formanns fjárlaganefndar þegar hann mælti fyrir nefndarálitinu, hv. þm. Willums Þórs Þórssonar, varðandi hagræðingarkröfuna sem hefur verið sett á Rannís. Ég er gríðarlega þakklát fyrir það og mér finnst mjög mikilvægt að við höfum náð að leggja þá breytingu til. Mér yfirsást það og það var engin umræða um þetta í 2. umr., og ég held að þarna hafi verið um mistök að ræða, því að það skiptir gríðarlega miklu máli að við höldum uppi rannsóknum og nýsköpun í landinu, enda er það eitt af helstu stefnumálum núverandi ríkisstjórnar að gera það. Og Rannsóknasjóður og Tækniþróunarsjóður eru mikilvægastir og ákveðin grunnstoð í þeim efnum. Ég vil því þakka sérstaklega fyrir það, mér finnst það mjög mikilvægt.

Ég þarf svo aðeins að nefna málefni Íslandspósts. Ég verð að viðurkenna að mér þykir þetta mál í alla staði, eins og ég held reyndar öllum sem um málið hafa þurft að fjalla, verulega erfitt og meira að segja alveg hundleiðinlegt, leyfi ég mér að segja. Það er samt þannig að Íslandspóstur hefur í töluverðan tíma vakið athygli á því í hvað stefndi og ég minnist þess, þegar ég kem hér inn á þing 2016 og sest í umhverfis- og hv. samgöngunefnd, að þá kom þangað til okkar forstjóri Íslandspósts til að vekja athygli á stöðu mála hjá fyrirtækinu og hafði gert það áður.

Mér þykir ekki auðvelt að samþykkja hér einhvers konar neyðarlán til fyrirtækis, sérstaklega í ljósi þess að það liggur fyrir að fyrirtækið muni ekki geta borgað þetta til baka að óbreyttu, það þarf eitthvað annað til. Á sama tíma væri ég alls ekki tilbúin að taka þátt í aðgerðum sem sendu þetta opinbera hlutafélag í þrot. Það er auðvitað ekki svoleiðis. Ég fellst því algjörlega á þau sjónarmið sem uppi eru hjá meiri hluta fjárlaganefndar og hef ekki heyrt neinn af þeim þingmönnum sem hafa verið að gagnrýna þetta koma með aðrar lausnir í þessu máli.

Ég tek heils hugar undir það að við þurfum að hlaupa undir bagga með þessu fyrirtæki. Á sama tíma er algjörlega nauðsynlegt að setja þessar kröfur sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur sett inn í nefndarálitið, kalla eftir þessum upplýsingum. Fyrst og síðast held ég að við hér í þessum sal og í pólitíkinni mörkum stefnu um það hvernig póstþjónusta á að vera til framtíðar.

Við erum með fyrir þinginu frumvarp þar að lútandi. Ég hef ekki tekið þátt í mikilli umræðu um það, virðulegi forseti, en ég hygg að það sé eitthvað sem við þurfum að gera og fara yfir. Auðvitað gengur hún ekki upp þessi leið sem við höfum verið að fara hér á síðustu árum með Íslandspóst og ákveðinni útþenslu hjá því fyrirtæki, án þess að það þó standi undir alþjónustunni og því sem fyrirtækinu er falið að sinna.

Mér finnst erfitt að samþykkja þetta neyðarlán en mun gera það því að ég sé heldur enga aðra lausn. Ég legg áherslu á að við förum vandlega yfir framtíðarsýn okkar til póstþjónustu hér á landi á næstu misserum í tengslum við umræðu um póstfrumvarpið og sjáum svo til hvert stefnir og hver verður framtíð þessa fyrirtækis.

Ég held ég hafi þetta ekki lengra, virðulegi forseti.