149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að geta afgreitt fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2019 jafn tímanlega og raun ber vitni. Það er í takt við þingskapalög þar sem segir að stefnt skuli að því að 3. umr. ljúki eigi síðar en við lok fyrstu heilu viku desembermánaðar. Ég vil koma hér undir lok umræðunnar og þakka nefndinni fyrir gott samstarf og þinginu fyrir að hafa tryggt framgöngu málsins tímanlega vegna þess að eins og ávallt er í mjög mörg horn að líta.

Hér hafa menn undir lok umræðunnar tekið almenna umræðu um frumvarpið sem er í sjálfu sér sjálfsagt en mér finnst athyglisvert hve mikill munur er á sjónarmiðum stjórnarandstöðunnar hér í dag. Það birtist sérstaklega hvað varðar útgjöldin, en það birtist okkur líka á tekjuhliðinni. Staðan er sú að í þeim fjárlögum sem við afgreiðum nú erum við að auka frumgjöldin um tæplega 5% sem er töluvert mikil útgjaldaaukning og að því leytinu til eiga þeir inni fyrir orðum sínum sem hér hafa komið upp og sagt að menn verði að gæta sín í útgjaldavextinum. Ég get tekið undir það. Á það er hins vegar rétt að benda að útgjöldin sem hlutfall af landsframleiðslu vaxa ekki og það er góð innstæða fyrir því að gera betur á fjölmörgum málefnasviðum. Við þurfum að gera betur og erum að gera betur í samgöngumálum, við erum þar í sérstöku átaki. Við styrkjum betur heilbrigðismálin í landinu og það telur allt frá geðheilbrigðismálum yfir til heilsugæslunnar, yfir til stóru sjúkrahúsanna og þess sem gerist í þeim málaflokki á landsbyggðinni. Þetta styðjum við betur við með auknum fjárframlögum.

Við gerum sömuleiðis betur í menntamálum. Við aukum við endurgreiðslur í nýsköpun, þ.e. í rannsóknum og þróun. Rannsókna- og þróunarstyrkir hækka á næsta ári. Áfram væri hægt að telja yfir einstök málefnasvið og benda t.d. á að við drögum í þessum fjárlögum úr álögum á atvinnustarfsemina í landinu með því að lækka tryggingagjaldið. Það mun lækka í tveimur skrefum á næstu 12 mánuðum um 0,5 prósentustig, sem eru u.þ.b. 8 milljarðar, sem við erum að létta álögum af atvinnustarfseminni í landinu. Ég held að ekki veiti af miðað við þær fréttir sem við fáum um hagvöxtinn fram undan, það hvernig launahlutföll eru orðin og það hvað dregið hefur úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs á undanförnum árum.

Við gerum sömuleiðis tilslakanir í bótakerfum og í skattinum. Við hækkum persónuafsláttinn umfram það sem við væntum í verðbólgu á næsta ári. Það er hrein skattalækkun, ekki umfangsmikil en hún er liður í stærri aðgerð sem ríkisstjórnin hefur boðað á kjörtímabilinu.

Barnabætur hækka til þeirra sem hafa minnst. Við styðjum betur við það fólk og þrátt fyrir öll orðin sem hafa fallið í þinginu erum við að auka við fjármögnun almannatryggingakerfisins sem mun gera okkur kleift að styðja betur við þá sem standa höllum fæti í samfélaginu. Aldrei áður hafa jafn miklir fjármunir verið lagðir í almannatryggingakerfið.

Varðandi þróun útgjaldanna að öðru leyti vil ég taka fram að við getum ekki haft væntingar um að það verði jafn hraður vöxtur útgjaldanna og hefur verið undanfarin ár hjá ríkinu. Það er ekki hægt að hafa væntingar um það. Þess vegna fer að skipta verulega miklu máli fyrir okkur að beina sjónum okkar að hámarksnýtingu þeirra fjármuna sem við höfum úr að spila. Það gildir í öllum þessum stóru kerfum að tryggja að hvergi sé sóun, það sé búið að snúa við hverri krónu áður en henni er ráðstafað alls staðar í kerfunum hjá okkur þannig að við getum sem best náð markmiðum okkar um fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu sem og í menntamálum með því að reka samkeppnishæft menntakerfi frá fyrstu stigum upp í æðri menntun og að við byggjum hér upp innviði með hagkvæmum hætti í þágu atvinnustarfseminnar og landsmanna um allt land. Það verðum við að gera með þeim hætti að við forgangsröðum þjóðhagslega mikilvægustu verkefnunum fyrst.

Ég er þeirrar skoðunar eftir að hafa nú flutt hér fjárlagafrumvörp frá árinu 2014 fyrir hvert ár til ársins 2015 að það sé dálítið nýr tónn í þinginu þar sem þrátt fyrir einstaka undantekningar er ekki af sama krafti verið að kalla eftir enn frekari útgjöldum, en þannig hefur það verið undanfarin ár. Þetta held ég að sé vegna þess að þingmenn gera sér almennt grein fyrir því að öll vandamál verða að skoðast á þeim forsendum sem almennt hafa gilt, þ.e. öll okkar verkefni verða ekki bara leyst með því að auka við fjármagnið á bak við þau. Það er ekki alltaf hægt að leysa einstaka mál með aukafjármögnun, heldur verðum við að ganga úr skugga um að við séum að fara vel með þá fjármuni sem eru fyrir.

Ég verð að segja alveg eins og er að þó að ég hafi ekki mikið gert það að umtalsefni í þinginu finnst mér vera verulega breyttur tónn í þinginu hvað þennan þáttinn snertir. Menn hljóta að sjá þegar litið er yfir farinn veg að á undanförnum árum höfum við aukið við fjármögnun nánast allra stóru kerfanna sem við höldum úti.

Meginniðurstaðan varðandi það fjárlagafrumvarp sem við erum að fara að samþykkja er að staða ríkissjóðs er traustari en verið hefur um langt árabil. Landsframleiðslan á Íslandi hefur aldrei verið meiri. Við lækkum skuldir ríkissjóðs hratt og náum á næsta ári markmiðum okkar um skuldaviðmið. Þessi bætta staða gerir okkur kleift að ráðast í uppbyggingu innviða og bæta bæði félagslega og efnahagslega innviði með þeim hætti. Þetta er þess vegna fjárlagafrumvarp (Forseti hringir.) sem mun styrkja okkur. Það er sóknarfrumvarp, eins og hér hefur verið sagt, og mun leiða til betri tíma fyrir landsmenn alla.