149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[12:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór nokkuð nákvæmlega yfir það í framsögu minni áðan að útgjaldabreytingin á árinu er mjög lág borið saman við fjárlögin. Þá erum við að tala um 0,7% hreina útgjaldaaukningu sem er, eins og sjá má í frumvarpinu, mjög lágt í sögulegu samhengi. Það er mjög vel og ég leyfi mér að segja það vegna þess að fjárlögin eru auðvitað að mjög verulegu leyti til áætlun um hluti sem menn spá fyrir um 12 mánuði fram í tímann. Bara svo maður leyfi sér að taka t.d. tekjuhliðina er ekki sjálfgefið að menn geti spáð með þetta mikilli nákvæmni fyrir um hana eins og hér hefur tekist til. Ég segi það sama um þau fjárlög sem við erum að fara að samþykkja fyrir næsta ár, spá okkar um tekjur á árinu 2019 frá því í vor heldur nokkurn veginn.

Varðandi spurninguna sem hv. þingmaður kemur hér með er það þannig að á þeim grunni sem við gerum upp í dag hafa þær breytingar sem þarna eiga sér stað varðandi lífeyrisskuldbindingarnar ekki áhrif á afkomuna. Varðandi skattkröfurnar er það breytt framsetning. Áður var það sem sagt tekjumegin en við færum það nú gjaldamegin þannig að það er bara hrein tilfærsla. Síðan er það efni í alveg sérstaka umræðu á hvaða grunni best er að horfa á ríkisfjármálin. Ég held að mikið sé unnið með því að geta skoðað þetta á þessum þjóðhagsgrunni og lagt mat á það hvaða (Forseti hringir.) áhrif opinberu fjármálin í heild hafa á efnahagsstærðir í landinu.