149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

kjararáð.

413. mál
[16:08]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir vandaða og góða yfirferð yfir þetta frumvarp sem nú er til 1. umr. og fjallar um kjararáð sem nú er gengið á vit feðranna og hvernig við högum launafyrirkomulagi hjá nokkrum hópum, æðstu embættismönnum, dómurum og þjóðkjörnum fulltrúum og fleiri hópum.

Mig langar til að biðja hæstv. ráðherra að deila aðeins hugleiðingum með mér varðandi eina stétt sem þó er ekki lengur tilheyrandi þessum hópi, en tilheyrði kjararáði áður, eða heyrði undir kjararáð, en það er prestastéttin. Ég veit ekki hvort það er smekklega orðað að segja að þeir séu kannski dálítið utan garðs í þessu kjaralega umhverfi núna, en þessi stétt býr við lögvarinn rétt, samkvæmt 60. gr. laga nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, til þess að óvilhallur aðili ákvarði um laun þeirra. Niðurlagning kjararáðs felur því í sér að eitthvað annað verður að koma í staðinn. Hvað sér hæstv. ráðherra fyrir sér í þessu efni og hvernig er verið að vinna að kjaralegum atriðum prestastéttarinnar?