149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

skattlagning tekna erlendra lögaðila í lágskattaríkjum o.fl.

433. mál
[16:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Frumvarp þetta hefur að geyma tillögur að fjórþættum breytingum á framangreindum lögum. Í fyrsta lagi endurskoðað ákvæði um skattlagningu erlendra lögaðila í lágskattaríkjum, svokallað CFC-ákvæði, í öðru lagi ákvæði um samsköttun félaga, í þriðja lagi ákvæði um undanþágu frá reglum um takmörkun á vaxtafrádrætti og að lokum ákvæði um skattlagningu útsendra starfsmanna. (Gripið fram í: Það er bara fjölmennt.)

Frumvarpið felur í sér endurskoðun á núgildandi CFC-ákvæði í átt til frekari skýringar og með hliðsjón af tillögum sem lagðar hafa verið fram á alþjóðavettvangi. Líkt og á við um núgildandi ákvæði er megintilgangur nýs ákvæðis að heimila skattlagningu CFC-tekna hér á landi til að sporna við því að innlendir skattaðilar flytji fjármagn til svæða eða ríkja sem leggja á lága eða enga skatta, í þeim tilgangi að lágmarka eða komast undan skattlagningu á Íslandi.

Núgildandi ákvæði hefur verið í gildi frá árinu 2010 en nauðsynlegt þykir að skerpa á og styrkja ákvæðið með hliðsjón af alþjóðlegri þróun í málaflokknum á vettvangi OECD-ríkjanna. Markmið breytinganna er fyrst og fremst að tryggja rétta dreifingu skatttekna og skapa varnaðaráhrif gegn skattaflótta.

Í frumvarpinu er sömuleiðis fjallað um samsköttun. Tillaga frumvarpsins um breytingar á reglum um samsköttun félaga er lögð fram til að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA á núgildandi ákvæði um samsköttun. Samkvæmt frumvarpinu verður innlendum dótturfélögum félaga í EES- og EFTA-ríkjum auk Færeyja, sem staðsett eru hér á landi, heimil samsköttun með öðrum innlendum samstæðufélögum.

Í frumvarpinu er sömuleiðis lagt til að festa í sessi undanþágu fyrir innlend samstæðufélög frá takmörkunum á reglum um vaxtafrádrátt en núgildandi undanþága fellur úr gildi 1. janúar 2019. Undanþágan verður bundin við tengd félög sem njóta heimildar til samsköttunar. Reglur um takmörkun á heimild til vaxtafrádráttar hafa það að markmiði að sporna við skattsniðgöngu í viðskiptum milli tengdra aðila sem starfa þvert á landamæri. Sömu rök eiga ekki við um vaxtagreiðslur milli innlendra aðila en um slík viðskipti gilda eftir sem áður almennar reglur og armslengdarviðmið.

Lagðar eru til breytingar á skattskyldu í tengslum við útleigu á vinnuafli eða annars konar vinnuframlagi starfsmanna erlendra aðila hér á landi í byggingarstarfsemi eða mannvirkjagerð. Þörf er á að útvíkka ábyrgð og skyldu innlendra aðila sem launagreiðenda starfsmanna erlendra aðila vegna vinnu hér á landi.

Virðulegi forseti. Verði ákvæði frumvarpsins að lögum má ætla að endurskoðunin skili sér í betri árangri við að ná fram bættum skattskilum skattaðila sem eiga beint eða óbeint í CFC-félagi. Áskoranir sem skattyfirvöld standa helst frammi fyrir við eftirlit mála þar sem erlend félög eru notuð til skattskipulagningar eru vandkvæði við að afla nauðsynlegra upplýsinga og eftir atvikum gagna. Á það bæði við um upplýsingar um tilvist slíkra félaga, tekjur þeirra og atvik máls að öðru leyti. Þau vandkvæði verða ekki leyst til fullnustu með þessu ákvæði en hér eru þó stigin skref í rétta átt. Reynslan hefur sýnt að rík tilhneiging er til að fela eignarhald á CFC-félögum og því erfitt að leggja mat á hvaða áhrif ákvæðið hefur í krónum talið.

Talið er að ákvæði frumvarpsins um samsköttun muni hafa einhvern aukinn kostnað í för með sér, a.m.k. til skemmri tíma litið, þar sem opnað er fyrir samsköttun með innlendum hluta samstæðna sem ná út fyrir helgi landsteinanna. Engin leið er þó til að meta þau áhrif í krónum á þessu stigi en þau munu koma fram sem lækkun á tekjuskatti lögaðila vegna samnýtingar á rekstrartapi innan samstæðunnar strax, sem ella hefði komið fram á lengri tíma. Ákvæði frumvarpsins um undanþágur frá ákvæðum tekjuskattslaga um takmarkanir á frádrætti vaxtagjalda er ekki talið líklegt til að hafa aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð þar sem aldrei hefur komið til þess að ákvæðið nái til innlendra samstæðna.

Við mat á áhrifum ákvæðis frumvarpsins um útsenda starfsmenn á tekjur hins opinbera er litið til beinna áhrifa á tekjuskatt einstaklinga, útsvar og tryggingagjald. Það er mat fjármála- og efnahagsráðuneytisins að áhrif til hækkunar tekjuskatts einstaklinga verði, eins og áður er fram komið, á bilinu 50–100 millj. kr. á ári að meðaltali út tímabil fimm ára fjármálaáætlunar, áhrif til hækkunar tryggingagjalds um 100–200 milljónir á ári að meðaltali. Sömuleiðis munu sveitarfélögin njóta góðs af ákvæði þessu. Þannig eru metin heildaráhrif á tekjur hins opinbera um 150–300 millj. kr. á ári þegar búið er að draga frá persónuafslátt til útsvars.

Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.