149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.

440. mál
[17:13]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég kem fyrst og fremst upp til að þakka þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Ég þakkaði áðan formönnum flokkanna sérstaklega fyrir samstarfið en áttaði mig á því þegar ég var sest að ég hafði ekki þakkað þeim sem þakka skyldi, þ.e. framkvæmdastjórum stjórnmálaflokkanna sem hafa auðvitað lagt gríðarlega mikla vinnu í þetta frumvarp. Ég vil nota tækifærið hér og þakka þeim fyrir það. Ég ítreka að ég tel það mjög mikilvægt að þó að okkur greini á um margt þá sé sá vettvangur fyrir hendi sem við höfum átt þetta ár á milli framkvæmdastjóra stjórnmálaflokka á Alþingi. Ég held að það sé mikilvægt. Við ræðum hér inni mikið um traust á stjórnmálum og það er mikilvægt að stjórnmálaflokkarnir geti a.m.k. sameinast um það hvaða rammi er eðlilegur um starfsemi stjórnmálaflokka, hvaða kröfur okkur finnst eðlilegt að hið opinbera geti lagt á stjórnmálaflokka og hvernig við teljum að við getum gert þeim kleift að standa undir þeim kröfum. Eins og hér hefur komið fram er ákveðinn lágmarkskostnaður við það að reka stjórnmálaflokka og við viljum geta lagt á stjórnmálaflokka kröfur um að þeir standi almennilega að málum. Ég tel að við séum að gera það í þessu frumvarpi og með þeim breytingum sem við leggjum hér til. Sömuleiðis fagna ég því sem ég heyri frá hv. þingmönnum að ríkur vilji sé til þess að halda þeirri vinnu áfram. Ég hef ekki fleiri orð að sinni og ítreka að málið fer nú til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.