149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

endurskoðun laga vegna úthlutunar veiðiheimilda í makríl.

[15:39]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég fékk eiginlega ekki svar við neinni spurningu. Það sem er þá kannski rétt að hnykkja sérstaklega á er: Hyggst ráðherra viðhafa eitthvert sérstakt þverpólitískt samráð við þetta? Hér eru stór álitaefni uppi og þetta hefur auðvitað talsvert að segja um hvaða forræði við höfum yfir þessari sameiginlegu auðlind okkar því að jafnvel hér, þar sem um er að ræða nýja tegund í íslenskri lögsögu þar sem takmörkuð veiðireynsla var fyrir hendi, er í raun talið að það sé einhvers konar „sá á fund sem finnur“-fyrirkomulag á þessu eða frumbyggjafyrirkomulag varðandi veiðireynsluna. Það hlýtur því að vekja upp þær spurningar: Hvaða svigrúm höfum við samkvæmt núgildandi löggjöf til að stýra úthlutun veiðiheimilda með skilvirkum hætti?

Þess vegna ítreka ég spurningu mína um þverpólitíska samráðið. Það er líka ljóst að komi til breytinga þar sem eingöngu verði stuðst við veiðireynslu þeirra ára sem þarna er vísað til, áranna 2008–2010, eru það fyrst og fremst stærstu útgerðir landsins sem munu njóta góðs af því. Ég hygg að ein stærsta útgerð landsins, Samherji og tengdar útgerðir, hafi um fimmtung (Forseti hringir.) núgildandi veiðiheimilda og ljóst að það fyrirtæki muni þá njóta verulega góðs af því komi til þess að þessu verði endurúthlutað með vísan til þessarar veiðireynslu. Hæstv. ráðherra hefur haft forgöngu um að upplýsa hagsmunatengsl sín við það fyrirtæki og sagt að hann myndi skoða sérstaklega (Forseti hringir.) hæfi sitt varðandi slík mál kæmu þau upp. Því myndi ég vilja spyrja hæstv. ráðherra: Telur hann slíkt eiga við í þessu tilviki?

(Forseti (SJS): Forseti biður hv. þingmann að gæta að tímamörkum.)