149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

námsgögn fyrir framhaldsskóla.

407. mál
[16:48]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þetta er mikilvægt mál sem hér er tekið til umfjöllunar, námsefnisgerð. Það skiptir höfuðmáli fyrir þá sem eru í skóla að hafa greiðan og góðan aðgang að fjölbreyttu og aðgengilegu námsefni. Ég vil gjarnan tengja þetta við íslenskuna. Ég held að það sé sterkasta og besta leiðin til að efla íslensku og verja hana fyrir erlendum áhrifum að sjá til þess að nemendur hafi aðgang að kennsluefni á íslensku.

Ég held að peningum sé betur varið í námsgagnagerð á íslensku en í að styrkja t.d. almennt bókaútgáfu í landinu þó að á íslensku sé. Því þarna er grunnurinn lagður og ég held að við ættum frekar að forgangsraða í þessa veru. Síðan þarf að efla mjög og auka hvata fyrir kennara sem margir hverjir eiga mjög gott kennsluefni í sínum fórum en dreifa ekki vegna þess að þeim vex í augum að gefa það út og fá ekki til þess nægilega hvatningu og styrk.