149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:45]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég tek undir það. Í stjórnarsáttmálanum stendur — þið fyrirgefið mér þó að ég kunni hann ekki orðréttan — að í öllum málum sem varða lengri framtíð, í öllum kerfum, sé ótækt annað en að byggja á mjög breiðu samráði. Því hefur einmitt verið flaggað talsvert í stjórnarskrármálinu, að það þýði ekkert að keyra mál í gegn, það verði að ná sem breiðastri sátt. Skattamál hafa verið nefnd af hæstv. forsætisráðherra sem einmitt slíkt mál og það má örugglega til sanns vegar færa. En fiskveiðistjórnarmál hljóta alveg örugglega að vera slíkt mál. Mál sem varðar íslenska þjóð gríðarlega mikið, ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar og uppspretta tekna sem fara því miður í allt of litlum mæli til almennings, meira til stórútgerða.