149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:09]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég kem eiginlega bara upp til að svara þeirri rangfærslu sem hér var fleygt inn í salinn, að þetta mál snerist um að koma til móts við versnandi afkomu lítilla og meðalstórra útgerða. Það hafa nefnilega engin gögn verið lögð fyrir þingið um það og raunar hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra þvert á móti staðið hér í þingsal og sagt berum orðum að hann hafi engin slík gögn undir höndum. Staðreyndin er sú að til eru vel rekin og illa rekin sjávarútvegsfyrirtæki af öllum stærðum og gerðum. En að reyna að blekkja þingheim með því að halda því fram því að hér sé aðkallandi þörf að búa til einhvern sérstakan afsláttarflokk fyrir smærri útgerðir vegna þess að afkoma þeirra sé svo miklu verri en afkoma stærri útgerða — sú staðhæfing er einfaldlega röng og það eru engin talnaleg gögn sem styðja hana.