149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[16:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samkvæmt þeim tölum og þeim gögnum sem ég hef undir höndum og nefndin einnig og fjallaði sérstaklega um við gerð skýrslunnar til ráðherra á sínum tíma, kemur fram að rúm löggjöf hvað þetta varðar, hvort sem er í Kanada, þar sem mörkin eru engin, eða í Bretlandi og Hollandi þar sem þau eru svipuð því sem við leggjum til hér, eru engar vísbendingar um að það verði til þess annars vegar að konur færi þungunarrofið síðar á meðgönguna, eða hins vegar að þungunarrofum fjölgi. Það er sem sagt vísbending um hvorugt.

Hins vegar vil ég taka undir það sem hv. þingmaður segir, að ég held að við eigum að mörgu leyti eftir að þræða það inn í alla okkar löggjöf og alla okkar framkvæmd, ekki bara í heilbrigðisþjónustunni heldur almennt í samfélaginu, að ef við viljum fjölbreytileika í samfélaginu verður það að endurspeglast í löggjöf, í reglugerðum og í framkvæmd laga og m.a. í heilbrigðiskerfinu. Er sannarlega ekki vanþörf á vegna þess að fjölbreytt samfélag er betra samfélag. En við þurfum þá að standa undir nafni í því að það endurspeglist líka í framkvæmdinni.