149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[19:30]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Til umræðu hefur verið hvort klára eigi samgönguáætlun fyrir áramót eður ei. Það hefur verið til umræðu á ýmsum stöðum. Við töldum það mál vera í farvegi og þess vegna fundust mér heldur kaldar kveðjur að heyra starfandi formann hv. umhverfis- og samgöngunefndar halda því fram að þetta væri allt saman bara á leiðinni, það væri bara óskilvirkri vinnu um að kenna ef við myndum ekki klára það fyrir áramót, að það hefði víst átt sér stað hellingssamráð og að engin ástæða væri til annars en að klára málið fyrir áramót.

Ég stóð í þeirri trú að þetta mál væri til umræðu hér í þinginu, um hvort til stæði að klára það eða ekki. Mér finnst satt best að segja svolítið óþægilegt að starfandi formaður umhverfis- og samgöngunefndar komi fram með þessum hætti beint í umræðuna. Mér finnst það ekki traustvekjandi. Mér finnst það ekki bera þess merki að hlustað hafi verið á okkur í stjórnarandstöðunni. Ég ítreka að mér þykir ekki við hæfi að við klárum þessa áætlun núna fyrir áramót, jafn órædd og jafn vanbúin og hún er. Stjórnarmeirihlutinn verður að fara að tala svolítið skýrt og segja hvað hann ætlar sér í þessum efnum.