149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[19:35]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Þetta er nokkuð sem maður er farinn að venjast, að það eigi að flýta málum í gegn rétt áður en við eigum að fara í frí. Þetta er óþolandi. Svo sjáum við formann hv. umhverfis- og samgöngunefndar koma í kvöldfréttum og svara því til að þetta hafi legið fyrir frá því í september. Þessar breytingartillögur hafa ekkert legið fyrir frá því í september, þær eru nýtilkomnar og við eigum að gútera það og afgreiða í flýti í gegnum þingið. Út af hverju? Hvers vegna þarf að flýta sér svona mikið? Það er allt í uppnámi út af þessu. Þetta er óheiðarlegt, forseti, það er óheiðarlegt að koma svona fram gagnvart minni hlutanum og gagnvart almenningi í landinu, að fara í svona ofboðslega miklar og stórar breytingar í máli sem samfélagið hefur ekki átt samtal um. Svo á bara að þrýsta þessu í gegn.