149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[19:39]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Okkur verður tíðrætt um samráð í þessum þingsal. Ég vil líka hvetja hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutann til að hafa aukið samráð sín á milli vegna þess að það virðist vera munur á því milli daga, milli fólks, milli flokka og innan flokka, við hvern maður talar í stjórnarliðinu, hvort til standi að klára þetta mál fyrir jól eða ekki. Þessi óvissa og óákveðni er óþolandi. Við erum að reyna að haga okkar störfum með sæmandi hætti og sjá fyrir okkur hvernig þetta verður og við erum líka að segja að til að þingstörf geti klárast á eðlilegan hátt þurfi þetta mál að bíða. Til þess þurfum við að fá skýr svör og þau hafa ekki fengist í marga daga. Það er orðið mjög þreytandi að enginn í þessari ríkisstjórn geti ákveðið hvað standi eiginlega til.