149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs.

417. mál
[22:59]
Horfa

Una María Óskarsdóttir (M):

Hæstv. forseti og hæstv. ráðherra. Hér er lagt fram frumvarp til laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs og fór ráðherra yfir forsögu þess máls. Settur var á fót undirbúningshópur sem Ungmennafélag Íslands, Íþróttasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og fleiri sérfræðingar tóku þátt í. Þetta starf er tímabundið, eins og ráðherra sagði. Hún fór einnig yfir hið mikilvæga hlutverk þessa samskiptaráðgjafa og sýnist mér það skipta miklu máli í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað varðandi öll þau atvik sem orðið hafa í íþróttahreyfingunni.

Í tengslum við þetta frumvarp langar mig að minnast á og tel rétt að nefna að íþróttahreyfingin hefur lengi þrýst á um að hægt sé að fá upplýsingar um sakavottorð. Ég veit t.d. að í Danmörku er það þannig hjá sambærilegum félögum að mjög auðvelt er að fá upplýsingar um sakavottorð og persónuverndarlögin hér á landi eru keimlík lögunum í Danmörku. Þess vegna spyr maður sig hvers vegna það sé svo flókið að fá slíkar upplýsingar hér. Þá vil ég hvetja til þess að vandað verði til verks varðandi hvar þessi nýi starfsmaður mun starfa. Væntanlega er heppilegt að staðsetja hann innan æskulýðsgeirans.

Ég vil líka minnast á að frumvarpið tekur ekki á ákveðnu grundvallaratriði að mínu mati, þ.e. um að stjórnir íþróttafélaganna og deildanna í landinu þurfa líka að setja sér leiðbeinandi reglur um samskipti og hegðun og hafa eftirlit með starfinu. Ég er líka tala um bætt uppeldi þjóðarinnar. Ég nefni það atriði vegna þess að ef slíkt væri í betra horfi væri þörfin fyrir slíkan samskiptaráðgjafa kannski minni. Að því þurfum við að huga meira að mínu mati.

Ég vona annars að þessi starfsmaður muni nýtast vel og finnst frumvarpið gott hvað það varðar.