149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Með leyfi forseta:

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

Svo er kveðið í Hávamálum og má örugglega segja að þetta sé þekktasti hluti Hávamála. Meira um það síðar.

Á Vísindavefnum er grein sem heitir „Skilar stjórnmálaáróður árangri og hvers vegna þá?“ Í þeirri grein er svokallað ELM-líkan útskýrt, hvernig hægt er að meðtaka stjórnmálaáróður á mismunandi hátt, með leyfi forseta:

„Með því að huga gaumgæfilega að þeim rökum sem sett eru fram, að hvaða niðurstöðu er komist og hvernig það er gert. Þetta er nefnt kjarnaleið.“

Eða:

„Með því að beina athyglinni að yfirborðskenndum eiginleikum skilaboðanna sem krefjast ekki mikillar ígrundunar. Þetta kallast jaðarleið.“

Dæmi um jaðarleið eru þau áhrif þegar útlit hefur á trúverðugleika áróðurs. Í greininni er Arnold Schwarzenegger nefndur sem dæmi, hvernig frægð hans og vaxtarrækt hefur vafalaust haft áhrif á marga kjósendur.

Í rökfræðinni kallast slík áhrif tilvísun í kennivald eða á ensku „appeal to authority“ og er flokkað sem rökvilla. Þeirri rökvillu má lýsa í nokkrum stuttum setningum: Ekki dæma bókina af kápunni. Ekki dæma stjórnmálaflokk af nafninu. Ekki dæma þingmanninn af klæðaburði. Eða almennt: Ekki dæma innihaldið af útlitinu.

Skortur á trausti á Alþingi er vandamál, svo stórt vandamál að það er ekki nóg að klæða sig bara í falleg föt og láta eins og allt sé í stakasta lagi. Við förum ekki jaðarleið að því að efla traust á Alþingi og stjórnmálum. Við verðum að fara þá leið sem Hávamál benda okkur á, kjarnaleiðina. Við verðum að byggja upp orðstír okkar og þingsins á góðan hátt, ekki með íburði og sýndarmennsku. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)