149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

Þjóðarsjóður.

434. mál
[18:33]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir greinargóða yfirferð yfir þetta stóra mál. Mig langar að staldra við stjórn sjóðsins. Nú blasir við að ef vel tekst til, en engin ástæða er til að ætla annað, verða þetta gríðarlegir fjármunir þegar fram í sækir sem stjórnin ber ábyrgð á. Ég velti því fyrir mér hæfisskilyrðum þeirra sem veljast til ábyrgðar eða til stjórnarinnar. Þarna er talað um að geta gegnt stjórnarsetu tilhlýðilega, eins og það er orðað, og einkum horft til þekkingar á fjármálamarkaði og hagfræði. Ég hefði talið skynsamlegt að í lögunum væru gerðar ríkari kröfur, í það minnsta ekki minni en gerðar eru til fjármálafyrirtækja almennt og dettur mér helst í hug í því sambandi hvort ekki væri ástæða til að herða þarna nokkuð á, t.d. með því að taka upp reglur sem varða gott orðspor. Það er þekkt hugtak í fjármálaheiminum og það eru ítarlegar leiðbeiningarreglur um hvað í því felst, m.a. samevrópskar reglur sem Fjármálaeftirlitið okkar styðst við. Ég held því að ástæða sé til þess a.m.k. að girða fyrir að þarna veljist til stjórnar fólk sem veldur ekki (Forseti hringir.) starfinu eða nýtur ekki fyllsta trausts. Þjóðarsjóður er þess eðlis að allir verða (Forseti hringir.) að treysta honum.