149. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[15:14]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það má öllum vera ljóst í þessum sal að heilbrigðisstofnanir úti um landið eiga við rekstrarvanda að stríða. Það ræddum við hér þegar við fjölluðum um og afgreiddum fjárlagafrumvarpið.

Við í Samfylkingunni lögðum fram breytingartillögu upp á 800 millj. kr. sem færu í að rétta þessa stöðu við þannig að heilbrigðisþjónustan úti um landið væri góð hjá öllum íbúum. Þeirri ágætu tillögu hafnaði stjórnarmeirihlutinn. En af hverju erum við þá að ræða þetta núna þar sem búið er að hafna tillögum og búið að taka pólitíska ákvörðun hjá stjórnarmeirihlutanum um að viðhalda þeim vanda heilbrigðisstofnananna fyrir árið 2019? Jú, það er vegna þess að við erum núna á síðasta degi fyrir jól að ræða frumvarp til fjáraukalaga sem hefur verið inni í þinginu í viku.

Það er þannig, herra forseti, að aðstæður á Suðurlandi, í Suðurkjördæmi, reyndar hjá báðum heilbrigðisstofnunum þar, eru, eins og passar við og má rökstyðja mjög vel að passi við 26. gr. laga um opinber fjármál, sem fjallar um frumvarp til fjáraukalaga. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt, ef þess gerist þörf, að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins, …“

Ef við tökum Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sérstaklega fyrir er það svo að á síðustu þremur árum hefur íbúum á Suðurnesjum fjölgað um 22%. Einhverjar milljónir hafa komið inn 2017 og 2018 til að mæta þeirri stöðu. Það er alveg augljóst að ef stofnunin á að fara með halla vegna íbúafjölgunar inn í árið 2019 þarf hún að skera niður fyrir þeim halla, auk þess að reyna að berjast við að þjóna íbúum Suðurnesja sem fjölgar stöðugt og hefur fjölgað mikið á þessu ári ef við horfum á það sérstaklega. Í 30. gr. laga um opinber fjármál, segir:

„Útgjöld, sem eru umfram fjárheimild í árslok, skulu dragast frá fjárheimild næsta árs.“ Sem þýðir að stofnunin fer með í það minnsta 60 millj. kr. halla sem hún þarf að draga frá fjárheimildum sem samþykktar hafa verið fyrir árið 2019. Þetta þýðir bara enn meiri vanda en nú þegar er.

Ég sem Suðurnesjamaður þekki á eigin skinni í hvaða vanda stofnunin er. Það þekkjum við Suðurnesjamenn mjög vel. Og það er vitað og hefur komið fram samkvæmt upplýsingum frá opinberum aðilum að Suðurnesjamenn sem hafa skráð sig hjá einkareknu heilsugæslustöðvunum á höfuðborgarsvæðinu eru mjög margir. Ríkið borgar fyrir þá þjónustu, er bara að opna sína vasa fyrir þeirri þjónustu en getur ekki greitt fyrir opinbera þjónustu í landshlutanum fyrir Suðurnesjamenn. Þetta er sannarlega til umhugsunar hér. Mér finnst að fjárlaganefndarmenn og við öll hér sem erum með fjárveitingavaldið ættum aðeins að staldra við og hugsa hvort ekki sé betra fyrir íbúana á Suðurnesjum og fyrir opinbera heilbrigðiskerfið að við styrkjum það til að þjóna íbúunum en það séu ekki betur settir Suðurnesjamenn sem geta sótt sér þjónustuna í einkareknar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu.

Ef við horfum á íbúasamsetninguna á Suðurnesjum er hún líka óvenjuleg. Það er ekki bara það að fjölgunin sé langmest á öllu landinu þar, heldur eru 25% íbúanna með annað móðurmál en íslensku og hlutfall öryrkja er hærra á Suðurnesjum en á öðrum stöðum á landinu og ungt fólk með sérstök vandræði eru líka í hærra hlutfalli en annars staðar. Það er sannarlega ástæða til að líta til Suðurnesja sérstaklega og þjónustu ríkisins við Suðurnesjamenn, enda samþykkti meiri hlutinn bókun við ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 að það ætti sérstaklega að líta til Suðurnesja. Þessi staða var ekki að komast upp í gær. Menn voru ekki átta sig á þessari stöðu í gær. Þegar fjármálaáætlun var rædd voru menn mjög meðvitaðir um þá stöðu og samþykktu sem pólitíska yfirlýsingu að líta ætti sérstaklega til Suðurnesja á árunum 2019–2023. En það er ekki gert, heldur hefur verið tekin pólitísk ákvörðun um að leggja minna í heilbrigðisstofnun Suðurnesja en aðrar stofnanir á landinu. Síðastliðin fjögur ár hafa fjárveitingar til heilbrigðisstofnana úti á landi verið á milli 17% og 19% nema á Suðurnesjum, þar sem það hefur verið 12,9%. Þó er staðan þar svona sérstök.

Þess vegna eigum við að nota það tækifæri sem við höfum hér til að sjá til þess að stofnunin fari ekki með neikvæða stöðu inn í árið 2019 og segja: Við vissum ekki þegar við samþykktum fjárlög fyrir árið 2018 að íbúum myndi halda áfram að fjölga svona mikið á Suðurnesjum. Það var ófyrirséð og þess vegna notum við fjáraukalögin til að laga þá stöðu. Það liggur beint við og það er pólitísk yfirlýsing á prenti hjá meiri hlutanum að líta eigi sérstaklega til þeirrar stöðu. Og látum það nú verða í verki með því að samþykkja breytingartillögu sem sú sem hér stendur og hv. þingmenn Inga Sæland og Birgir Þórarinsson leggja fram.

Við viljum líka skoða sérstaklega Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem glímir einnig við rekstrarvanda. Það vita allir og það hefur margoft verið rætt í þessum sal. Þá hefur sérstaklega verið horft á vegakerfið og aðstæður lögreglunnar. En það þarf líka að horfa á heilbrigðiskerfið þegar við horfum á hvernig ferðamenn fara um landið. 97% allra erlendra ferðamanna sem koma til landsins fara um Suðurland. Það eru stórar sumarhúsabyggðir á Suðurlandi. Íslendingar ferðast líka mikið um Suðurland. Því miður verða slys og fólk verður veikt. Það þarf að komast á bráðadeildina á Selfossi. Aukningin á heimsóknum á bráðadeildina, eða slysadeildina á Selfossi, er ekki 10% á undanförnum fjórum árum, ekki 20%, heldur 64%. Vitanlega þarf að bregðast við þeirri stöðu. Sú stofnun er líka í mjög neikvæðri stöðu og það er mjög auðveldlega hægt að samþykkja breytingartillögu við fjáraukalagafrumvarpið til að segja: Það komu fleiri ferðamenn, það urðu fleiri slys á Suðurlandi en við gerðum ráð fyrir. Við þurfum að bregðast við því og þess vegna samþykkjum við aukakrónur til rekstrar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands svo að stofnunin fari ekki með neikvæðan höfuðstól inn í árið 2019 og þurfa að skera niður enn frekar.

Þetta varðar þjónustu, þetta varðar heilbrigðisþjónustu. Þetta varðar grunnþjónustu við fólkið í Suðurkjördæmi. Og þess vegna bið ég ykkur hátt — ég má auðvitað ekki segja það, þess vegna segi ég, herra forseti:

Hv. þingmenn sem skilja þessa stöðu, hv. þingmenn sem samþykktu að setja bókun inn í fjárhagsáætlun fyrir árið 2019–2023 hljóta að greiða atkvæði með breytingartillögunni sem hér verður borin upp til atkvæða á eftir.

Herra forseti. Mér finnst það satt að segja vera mikill skandall — ég er að reyna að leita að orðinu sem ég á að nota — ef stjórnvöld taka þá pólitísku ákvörðun að bregðast ekki við þeim mikla íbúafjölda og þeirri fjölgun sem orðið hefur á undanförnum árum á Suðurnesjum og svelta heilbrigðisstofnanirnar og pína fólkið til að sækja sér, þeir sem það geta, þjónustu á höfuðborgarsvæðinu. En hvað gera þeir þar? Þar er kassinn opnaður og peningar greiddir. En það eru ekki allir sem eiga þennan möguleika. Þetta er bara klár mismunun.

Ég vona að ég hafi sannfært einhvern í þessum sal um að greiða atkvæði með breytingartillögunni. Mér er mikið niðri fyrir. Þetta kemur frá mínum innstu hjartarótum. Ég er að tala um lykilstofnanir í kjördæminu, stoðirnar undir byggðirnar. Hver vill búa til lengdar við fjársvelta heilbrigðisþjónustu í góðærinu sem er búið að lýsa svo fjálglega fyrir okkur í hinum ýmsu ræðum, bæði í þessum sal og einnig hafa ráðherrar farið orðum um góðærið í fjölmiðlum. En það á ekki að leyfa okkur á Suðurnesjum að njóta þess, alla vega þegar kemur að heilbrigðisþjónustu.

Herra forseti. Ég hef lokið málinu og treysti því að ég hafi fengið a.m.k. þau sex atkvæði sem ég þarf til þess að fá meiri hluta fyrir þessari tillögu.