149. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[15:51]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það er undarlegt ef ekki má taka umræðu við 3. umr. um frumvarp sem er búið að vera hér aðeins í viku. Satt að segja hélt sú sem hér stendur að stjórnarmeirihlutinn myndi taka á þessum mikla vanda sem er bæði á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Það þarf að bregðast við ófyrirséðum vanda sem blasir við stofnununum vegna aukins íbúafjölda og fjölda ferðamanna, sem allir eru sammála um. Það er bara ekki nóg, herra forseti, að standa hér í pontu og segja: Við skiljum og vitum að vandinn er svakalegur og hræðilegur og að þetta er erfitt fyrir Suðurnesjamenn — og gera svo ekkert, setja svo ekki krónu í að leysa vandann.

Það er til skammar, herra forseti, og það er ömurlegt að vita til þess að það sé pólitísk ákvörðun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að svelta heilbrigðisstofnanir í Suðurkjördæmi.