149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að orðið marxismi væri orðið skammaryrði í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði. Lengi vel hafa einmitt verið þar starfandi meðlimir sem hafa státað sig af því að vera marxistar en nú sárnar a.m.k. einum hv. þingmanni að flokkur hans sé kenndur við þá stefnu. En ég skal útskýra við hvað ég á þó að mér vinnist að sjálfsögðu ekki tími til að rekja það í neinum smáatriðum.

Við höfum að undanförnu séð mörg dæmi um það að hæstv. heilbrigðisráðherra sé í baráttu við allan rekstur sem fellur ekki undir Landspítalann. Þessi samrunastefna, að færa sem mest inn á Landspítalann, og þar með undir ríkið beint, hefði ég talið að væri yfirlýst markmið flokks hv. þingmanns. Þá væri einfaldlega hægt, ef ég væri með það hjá mér, að lesa upp stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Ef til vill getur hv. þingmaður gert það fyrir mig og þá sjáum við hvort í því felist leiðrétting eða staðfesting á því að flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs gerði mjög ítarlega og ágætlega grein fyrir stefnu flokksins í þessum efnum.

Sú stefna hefur tekið á sig ýmsar birtingarmyndir í starfi hæstv. heilbrigðisráðherra að undanförnu, m.a. í andstöðu ráðherrans við alla þá lækna, að því er virðist, sem eru starfandi utan Landspítalans sem nær það langt að ráðherra telur betra að senda fólk til útlanda í aðgerðir á einkastofum og borga fyrir það þrefalt það sem það myndi kosta að framkvæma aðgerðirnar á Íslandi vegna þess að það sé á einhvern hátt svo ljótt að starfa á einkastofu að það verði þá a.m.k. að gerast utan landsteinanna.