149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:03]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina þótt hraðskreið hafi verið og finn mig knúna til að spyrja: Er hæstv. samgönguráðherra meðvitaður um þær grundvallarbreytingar sem eiga sér stað núna hjá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar um þær samgönguáætlanir sem hann lagði fram í haust til fimm og 15 ára?

Nú er það svo, svo að ég vitni beint í orð hæstv. ráðherra, að ekki er stafkrók að finna í stjórnarsáttmála um veggjöld, en engu að síður hefur meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar lagt til umtalsverðar breytingar á samgönguáætlun hans og ríkisstjórnarinnar og leggur til vegaskatt í öll jarðgöng á Íslandi, óháð framkvæmdum, um allar stofnæðar inn og út úr höfuðborginni, á einstaka vegi og brýr, m.a. í kjördæmi ráðherrans og víða um land, að ótöldum stofnvegum innan höfuðborgarsvæðisins. Er þetta lagt til óháð því hvort framkvæmdir fylgi téðum veggjöldum og því ekki hægt að bera saman t.d. við framkvæmdir og veggjöld í Vaðlaheiðargöng eða Hvalfjarðargöng.

Hér er því, herra forseti, um almennan (Forseti hringir.) vegaskatt að ræða. Langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, sem sagðist alfarið á móti veggjöldum fyrir rétt um ári síðan: Hvað hefur breyst? Vegakerfið er í sama formi og þá. Hvað gerðist, herra forseti?