149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:37]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ýmislegt má staldra við í ræðu hv. þm. Þorgerðar Katrínar. Nú heitir þetta orðið skattahækkanir á suðvesturhornið þegar talað er um veggjöld til að flýta framkvæmdum, sem við vorum alveg sammála um, ég og Þorgerður Katrín, þegar við vorum í ríkisstjórn á síðasta ári, að væri sjálfsagt að skoða ef hægt væri að flýta framkvæmdum og gera meira. Það er ekkert í þessu sem hægt er að kalla beinar skattahækkanir á suðvesturhornið. Í tillögunum er talað um gjaldtöku um allt land og ákveðinn jöfnuð í því og talað er um það í niðurstöðu í drögum að nefndaráliti að gjöldin verði ekki umfram það sem sá ávinningur af framkvæmdunum er og færir þeim sem þurfa að nota vegina. Það kemur svo sem ekkert á óvart að heyra þessar breytingar á skoðun hv. þingmanns í þessu máli vegna þess að þær eru alls staðar.

Lækkuð veiðigjöld á stórútgerðir þegar það liggur alveg fyrir að samkvæmt eldri formúlu, sem var í gildi þegar hv. þingmaður var sjávarútvegsráðherra hér fyrir skömmu, hefðu lækkað veiðigjöldin meira. Hvaða tillögur var hún með sem sjávarútvegsráðherra í eitt ár um breytingar í þeim efnum? Það er vert að staldra við svona málflutning, virðulegur forseti.

Svo er þetta með hvalveiðistefnuna. Talað er um að ríkisstjórnin vilji breyta hvalveiðistefnunni. Ja, það væri breyting á hvalveiðistefnunni að hætta hvalveiðum. Hv. þm. Þorgerður Katrín var meðflutningsmaður minn á máli í þinginu 2007 eða 2008 um að hefja aftur atvinnuveiðar á hval. Hv. þingmaður var í ríkisstjórn þar sem þáverandi sjávarútvegsráðherra, Einar K. Guðfinnsson, tók ákvörðun um að hefja atvinnuveiðar á hval. Hv. þm. Þorgerður Katrín gerði eina breytingu varðandi hvalveiðar í tíð sinni sem sjávarútvegsráðherra og það á síðustu metrunum, þegar hún lokaði stórum svæðum í Faxaflóa án nokkurs (Forseti hringir.) rökstuðnings, án þess að hafa nokkurt samráð við hagsmunaaðila, gerði það í skjóli nætur. Núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur þó látið vinna skýrslu af hlutlausum aðilum til að fara yfir hvalveiðarnar, gera enn eina skýrsluna um hverjar afleiðingar þeirra hafa verið og hver staðan er. Það eru ekki þau vinnubrögð sem stunduð voru fyrir rúmu ári í sjávarútvegsráðuneytinu.