149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í íslensku samfélagi.

274. mál
[16:11]
Horfa

Flm. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta eru áhugaverðar hugleiðingar. Það er einmitt mikið verkefni óunnið í uppbyggingu innviðanna að þessu leyti í þessari þjónustu. Innflytjendur búa um allt Ísland þótt flestir séu suðvestan lands. En hvernig ætlum við t.d. að veita þjónustuna úti um landið? Og hver á að standa að baki stofnunar sem þessarar hér á þessu svæði og hvar á hún að vera? Á hún endilega að vera í Reykjavík? Við eigum mikilvægar og rótgrónar samfélagsstofnanir víða um land, líklega á sjö, átta stöðum, sem er Vinnumálastofnun, sem tengist málaflokknum dálítið sterklega. Hvernig getum við virkjað þær stofnanir? Það eru fleiri samstarfsaðilar, t.d. Rauði krossinn sem starfar um allt land, og þetta þurfum við einhvern veginn að fella í skorður. Það verður bara fróðlegt og uppbyggilegt að vinna að þessum málaflokki.

Ég vona fyrir hönd okkar allra að okkur takist að skapa aukinn skilning, því að á Íslandi búa 45.000 innflytjendur og fjölskyldur þeirra. Það eru þúsundir ungra barna í skólum. Við höfum ekki náð að taka nægilega vel utan um þau verkefni, að koma þeim áfram. Í framhaldsskólunum útskrifast færri en æskilegt er. Auðvitað er brottfall íslenskra nemenda úr framhaldsskólum sjálfstætt áhyggjuefni, en þarna höfum við mikil færi til að sækja. En þetta er auðvitað ekki óumdeilt. En fyrst og fremst þetta: Upplýsing og fræðsla og herja á fordóma.