149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[16:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna og að hún skyldi hafa farið í gegnum þessa miklu stefnu á mettíma. Það var vel af sér vikið. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að heildarsýnin er afskaplega mikilvæg og mér líst ágætlega á þá sýn sem sett er fram í stefnunni. Ég fagna því þegar hæstv. ráðherra segir að í fjármálaáætlun verði stefnan bútuð niður í ákveðnar aðgerðir eftir árum og það rími síðan við fjárframlög.

Ég spurði hæstv. ráðherra á síðustu vorönn, fyrir tæpu ári, um vandann sem blasir við vegna skorts á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum. Í svarinu kemur fram að ráðherra hyggist marka stefnu um mönnun hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og annarra heilbrigðisstarfsmanna innan heilbrigðisþjónustunnar og gera áætlun um það hvernig mannaflaþörfinni verður mætt. Mun sú stefna verða hluti af heilbrigðisstefnu velferðarráðuneytisins. Í stefnunni er auðvitað tekið á þessu máli. Þetta er bráðavandi. Það vantar hundruð hjúkrunarfræðinga, jafnvel í fjármögnuð stöðugildi, og sama er að segja um fyrirsjáanlegan vanda vegna skorts á sjúkraliðum.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvað er verið að gera í þessu núna? Eru það aðgerðir sem hæstv. ráðherra telur að geti mætt þessum vanda og lagað hann til framtíðar?