149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[17:45]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Þingsályktunartillagan um heilbrigðisstefnu sem við ræðum hér er ágæt, svo langt sem hún nær. Tíminn er naumt skammtaður og við erum að tala hér um sjö meginviðfangsefni í þessari stefnu og ég gæti haldið svona 10, 15 mínútna ræðu um hvert og eitt þeirra. Ég treysti auðvitað velferðarnefnd til að fara ítarlega ofan í þau. En óháð því sem hér stendur þá liggur alveg fyrir hvar hjarta þessarar ríkisstjórnar slær. Árið sem ríkisstjórnin tók við, árið 2017, voru útgjöld til heilbrigðismála í heild innan við 200 milljarðar, 196 milljarðar, en í lok kjörtímabilsins samkvæmt fjármálaáætlun árið 2021 ætlar ríkisstjórnin að vera búin að hækka þessi framlög til heilbrigðismála um nær 45 milljarða á föstu verðlagi. Það er hressilega gefið í og greinilegt að ásetningurinn er að byggja upp öflugt heilbrigðiskerfi og öfluga heilbrigðisþjónustu fyrir okkur öll. Það er ánægjulegt. Viðfangsefnið er kannski ekki síður að tryggja að þessir fjármunir nýtist með sem bestum hætti.

Ég held að það sé enginn ágreiningur í þessum sal frekar en almennt meðal okkar Íslendinga um að við viljum reka hér öflugt heilbrigðiskerfi. Við ætlum að gera það sameiginlega. Og við teljum að það sé mikil skynsemi í því m.a. að sameinast um að reka, undir hatti ríkisins, öflug sjúkrahús, en við verðum líka að hafa burði til þess að viðurkenna mikilvægi þess að einkaaðilar geti boðið upp á heilbrigðisþjónustu og þeir geri það á jafnræðisgrunni þegar kemur að fjármögnun miðað við ríkisreknar stofnanir, það séu sömu kröfur gerðar til þeirra að lágmarki og þeir njóti líka jafnræðis þegar kemur að fjármögnun. Mér sýnist einmitt að í þessari heilbrigðisáætlun sé boðað að menn tryggi það. Ég get fagnað því.

Það er auðvitað hægt að halda langar ræður um það með hvaða hætti við eigum að reyna að láta einkaframtakið vinna með og byggja undir og styðja við hið opinbera heilbrigðiskerfi. Allt heilbrigðiskerfið er auðvitað opinbert vegna þess að við verðum meira eða minna að standa undir því sameiginlega, en það hvernig við viljum efla samþættingu og samvinnu einkarekstur og ríkisrekins eða opinbers heilbrigðiskerfis skiptir máli, og við erum ekki alveg komin að leiðarlokum í þeim efnum og við erum kannski ekki alltaf samstiga í því hvernig við ætlum að gera það. En það hlýtur að vera eitt af því sem velferðarnefnd veltir fyrir sér.

Það er hins vegar eitt atriði sem ég tel nauðsynlegt að ræða hér umfram kannski önnur og er þó allt mikilvægt. Það liggur fyrir að einhver stærsta áskorun sem við stöndum frammi fyrir þegar kemur að heilbrigðiskerfinu á komandi árum og áratugum er auðvitað hvernig við nýtum fjármunina. Það verður alltaf kallað á aukna fjármuni og við munum sjálfsagt aldrei geta mætt öllum þeim kröfum. Jafnvel enn stærri áskorun er að tryggja mönnun heilbrigðiskerfisins, að hér verði nægjanlega margir sem eru tilbúnir að leggja það á sig að mennta sig til þess að vera læknir, hjúkrunarfræðingur, sjúkraþjálfari, tannlæknir o.s.frv., að leggja það á sig að sinna þeirri ótrúlega mikilvægu þjónustu sem heilbrigðisþjónustan er á öllum sviðum.

Þegar farið er yfir þingsályktunartillöguna þá er atriði nr. 3, Fólkið í forgrunni, ágætt svo langt sem það nær. Mér finnst að vísu að þegar menn hafa sett saman þessa 9 liði sem þar eru undir hafi þeir fyrst og fremst verið að huga að einhvers konar starfsmannastefnu hins opinbera kerfis. Þetta séu einhver markmið, sem eru ágæt út af fyrir sig, í hinum ríkisreknu heilbrigðisstofnunum. Það er gott og blessað, en við þurfum að ganga miklu lengra. Við þurfum að velta því fyrir okkur hvernig við getum byggt upp íslenskt heilbrigðiskerfi — æðsta markmið okkar er auðvitað að tryggja heilbrigðisþjónustu fyrir alla, eins góða og hægt er á hverjum tíma, og vera alltaf í hópi þeirra þjóða sem bjóða upp á bestu þjónustuna. En við þurfum að huga að því hvernig við erum samkeppnishæf við önnur lönd þegar kemur að hinum alþjóðlega heilbrigðismarkaði vegna þess að fólk innan heilbrigðisgeirans, hjúkrunarfræðingar, sjúkranuddarar, læknar, röntgentæknar o.s.frv., er allt fólk sem er í sjálfu sér ekki bundið við landamæri. Við þurfum að huga sérstaklega að þessu.

Ég er sannfærður um að þetta snýst ekki bara um t.d. launakjör sem við gætum boðið, þetta snýst líka um fjölbreytileika í starfsvali, að t.d. unga konan sem ákveður að fara til Svíþjóðar í framhaldsnám í læknisfræði, krabbameinslækningum eða heimilislækningum, sjái að það séu kannski önnur tækifæri hér á Íslandi en bara að ráða sig inn á Landspítala. Hún eigi t.d. möguleika á því að starfa sjálfstætt eða fara í vinnu hjá einkaaðilum og hún sjái fram á að til framtíðar sé hún kannski ekki háð duttlungum, ef svo má kalla, eins vinnuveitanda.

Það er ekki síst þess vegna sem ég held að það sé svo mikilvægt þegar við ræðum um hvernig við ætlum að skipuleggja heilbrigðisþjónustuna að við hugum að því að gefa þessu ótrúlega hæfileikaríka fólki fjölbreyttari möguleika á að velja sér starfsvettvang en bara hjá ríkinu. Ég er alveg klár á því að fjölbreytileiki í þessum efnum muni styrkja hinn opinbera rekstur líka vegna þess að allt getur unnið saman ef við skipuleggjum hlutina af skynsemi.

Tíminn líður. Eitt að lokum, herra forseti. Það er líka nauðsynlegt, en það má kannski velta fyrir sér hvort það eigi að vera hluti af þessari heilbrigðisstefnu til 2030, eða hvort það eigi hreinlega að eiga sér samstarf um það annars vegar á milli hæstv. heilbrigðisráðherra og hins vegar hæstv. nýsköpunarráðherra, að marka ákveðna stefnu um það hvernig við getum ýtt undir og eflt nýsköpun í heilbrigðiskerfinu, bæði hinu opinbera og í einkarekstri. Við þurfum að marka stefnu um það hvernig við getum laðað ungt fólk, ekki bara fólk sem er menntað á sviði heilbrigðisvísinda heldur líka á sviðum hugbúnaðar, verkfræði, tölvunarfræði o.s.frv., (Forseti hringir.) hingað til að taka þátt í að efla nýsköpun. (Forseti hringir.) Ég er algjörlega sannfærður um að staða okkar á Íslandi er ótrúlega (Forseti hringir.) sterk þegar kemur að því að nýta okkur nýsköpun í heilbrigðiskerfinu með skynsamlegum hætti (Forseti hringir.) og það kemur okkur öllum til góða.