149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

sorpflokkun í sveitarfélögum.

354. mál
[17:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og ágæt svör hæstv. ráðherra. Það vekur vissulega dálitla umhugsun og furðu að ekki skuli vera betri yfirsýn yfir þennan málaflokk umhverfismála, eins mikilvægur og knýjandi hann er og eins mikið í umræðunni og hann er.

Kveikjan að fyrirspurn minni er eigin reynsla og mitt bardús við að flokka heima. Ég hef sterklega á tilfinningunni að almenningur sé tilbúinn til að taka þátt í þessu verkefni, þetta sé kjörið verkefni til að fá almenning í lið með sér. En ég rek mig stöðugt á það þegar ég er að flokka að ég er ekki viss í hvaða fötu á að setja þetta eða hitt. Sérstaklega hefði ég kosið aðgengi að moltu eða að einhver lífræn úrgangsstöð væri innan viðráðanlegrar fjarlægðar.

Ég er af þeirri kynslóð að hafa upplifað sorphirðu sem eitt af þeim hversdagslegu og reglubundnu verkefnum sveitarfélagsins og ekki mikið um þau fengist. Ruslabíllinn kom og fór og ekki orð um það meir. Hann keyrði eitthvað út fyrir bæinn og sturtaði ruslinu og lengi framan af var því brennt. Síðan var farið að urða það. En nú eru tímarnir breyttir. Sorphirða og úrgangsvinnsla er stórfelld umsýsla sem veltir gríðarlegum peningum og er meira að segja orðin útflutningsvara og stundum með uppbyggilegum hætti. En það er ekki alltaf.

Ég spyr ráðherrann hvort á döfinni séu áætlanir um að auka umræðuna enn meira og ýta undir vitundarvakninguna, fá almenning í lið með sér í enn auknum mæli.