149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

bólusetning ungbarna gegn hlaupabólu.

400. mál
[17:47]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og vil byrja á að lýsa ánægju með að málið sé komið á dagskrá og sé komið til jákvæðrar skoðunar í ráðuneytinu. Þó svo að um sjúkdóm sé að ræða sem mjög margir ef ekki flestir komast klakklaust í gegnum er svo alls ekki alltaf þar sem sjúkdómurinn getur orðið mjög alvarlegur í börnum. Og jafnvel enn frekar, held ég, án þess að vera læknisfræðilega menntuð, ef fullorðnir einstaklingar sýkjast af honum.

Mér finnst fínt að fyrir liggi útreikningar á því nú þegar hvað það gæti kostað samfélagið að taka þetta upp og ekki síður að búast megi við því að kostnaðarhagkvæmni sé í því fyrir samfélagið í heild að taka upp bólusetningar við hlaupabólu. Auðvitað spilar vinnutap foreldra fyrst þar inn í en fyrir mér snýst þetta líka um jafnræði barna og stöðu þeirra þegar kemur að vörnum gegn sjúkdómum. Ég tel að með því að taka upp almennar bólusetningar fari efnahagur foreldra að skipta minna máli svo og staða þekkingar foreldra á mögulegum hættum sem skapast (Forseti hringir.) gagnvart sjúkdómnum, þannig að þetta er alltaf að einhverjum hluta efnahagslegt spursmál. En þetta er líka bara (Forseti hringir.) sjúklingapólitískt og barnaréttarlegt málefni, og ég ætla aftur að fagna því að það sé til wjákvæðrar skoðunar í ráðuneytinu.