149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[15:37]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni ræðu sem kallar á fullt af spurningum. Ég ætla að reyna að takmarka mig við fáar.

Það sem var jákvætt við fimm ára áætlunina að mínu mati var hún var fullfjármögnuð og byggð á mjög traustum grunni fjármálaáætlunar og fjármálastefnu.

Ég tók umræðu í gær við einn af stuðningsmönnum minnihlutaálitsins, Björn Leví Gunnarsson, þingmann Pírata. Það kom mér mjög á óvart að sjá minnihlutaálitið þar sem um 57 milljarðar eru settir út um gluggann og algjörlega óskilgreint hvernig þeir eigi að verða til og samgönguáætlun algerlega ófullfjármögnuð.

Á sama hátt er ég sammála hv. þingmanni að ríkisstjórnir hafa í langan tíma sett of lítinn pening í samgöngumál, ekki síst ríkisstjórn hv. þingmanns, Samfylkingin, á árunum 2010–2013, þar sem var eintómur niðurskurður. Ég man ekki eftir því (Forseti hringir.) að Samfylkingin hafi á síðustu árum komið fram með hugmyndir í fjárlögum um sérstakt átak í samgöngumálum. Ég man ekki eftir því en hv. þingmaður leiðréttir mig ef svo er.