149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:03]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Við erum þá búin að komast að þeirri niðurstöðu að við erum ósammála um það hvernig að þessum málum er unnið. Ég bind enn þá vonir við að við verðum minna ósammála um endanlega útkomu. Það er alltaf hægt að vona.

Varðandi það hvort ég sé ósammála hugmyndum borgaryfirvalda um einhvers konar gjaldtöku innan borgarmarkanna fer það í fyrsta lagi eftir nánari útfærslu, svo lengi sem aðrir samgöngumöguleikar eru í boði. Þá kalla ég enn og aftur á hluti eins og borgarlínu, aðrar almenningssamgöngur eða bara aðrar leiðir sem ekki krefjast gjaldtöku. Þá erum við að tala um allt annan hlut. Þá erum við að tala um skilgreiningu á gjaldtöku. Þessi hugtök skipta einfaldlega máli.

Þannig að nei, ég er ekki endanlega og algjörlega ósammála því, tel meira að segja að það geti verið fín leið, en að uppfylltum sömu skilyrðum og ég hef lýst eftir að séu til staðar þegar við tölum um veggjöld í samgöngumálum á landsvísu, en ekki svæðisbundna skattlagningu.

(Samgrh.: ... bæði tímabær og nauðsynleg.)