149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:16]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið frá hv. þingmanni. Hressandi að fá flugið inn í umræðuna. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður var hér inni þegar ég ræddi áðan um flugið og talaði um, í ljósi þess hve mikil áhersla hefur farið á veggjaldaumræðu og stofnbrautir og þá brýnu þörf sem þar er að spýta í lófana, að jafnframt þyrfti að gera það vel.

Þá óskaði ég eftir því að á sama tíma og hér yrði unnið vel og náið með helstu hagsmunaaðilum að uppbyggingu almenningssamgangna um allt land, þá væri jafnframt farið ofan í saumana á tillögum þeirrar nefndar eða starfshóps, sem hv. formaður gegnir forstöðu, sem skilaði fínum tillögum. Vegna þess að ég tel að þær hafi ekki fengið nægilega athygli. Það var ýmislegt annað sem þótti brýnna að ræða. Og í ljósi þess að samgönguáætlun verði tekin aftur upp í haust óska ég eftir því að við förum í frekari vinnu til að vinna þetta saman; þéttriðið net, almenningssamgöngur og innanlandsflug.