149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Herra forseti. Fimmtudaginn síðasta ræddum við hér þingsályktunartillögu um heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Þar kemur fram að Sjúkratryggingar Íslands skuli annast kaup á heilbrigðisþjónustu sem byggist á þarfagreiningu og miðist við þarfir íbúanna í landinu.

Í þeirri þarfagreiningu er mikilvægt að einnig sé tekið tillit til utanaðkomandi þátta og aðstæðna sem eru mismunandi eftir landsvæðum, t.d. fjölda ferðamanna og ferðamannastaða, sumarhúsabyggð og fjarlægðar milli staða. Að greiningu lokinni þurfum við svo að gera Sjúkratryggingum Íslands kleift að greiða fyrir þjónustu samkvæmt þeim greiningum sem fyrir liggja.

Ef við skoðum aðeins stöðu mála varðandi hjúkrunarheimilin tókst ekki að framlengja rammasamning við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samband íslenskra sveitarfélaga varðandi hjúkrunarheimilin fyrir áramót. Gerðar hafa verið greiningar á kröfulýsingum ríkisins til starfseminnar en samningsumboð Sjúkratrygginga Íslands nær ekki nógu langt til að samningar náist.

Staðan er því þannig að Sjúkratryggingar Íslands birtu nýja gjaldskrá fyrir árið 2019 þann 21. desember sem fól í sér umfangsmiklar og róttækar breytingar án þess að upplýsa hjúkrunarheimilin fyrir fram.

Frá árinu 2004 hafa greiðslur tekið mið af breytingum á hjúkrunarþyngd íbúa heimilanna samkvæmt ákveðnum RUG-stuðli. Í gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands fyrir árið 2019 er ekki gert ráð fyrir hækkun vegna aukinnar hjúkrunarþyngdar heldur er miðað við sama greiðslustuðul og var árið 2018.

Þrátt fyrir aukna hjúkrunarþyngd vegna veikari íbúa en áður eru ekki hærri greiðslur.

Einnig var breyting á fyrirkomulagi greiðslna á svokölluðu smæðarálagi en vinnuhópur er að störfum við mat á framtíðarfyrirkomulagi þess en hefur ekki lokið störfum og höfðu ekki verið ræddar þær breytingar sem gerðar voru með nýrri gjaldskrá.

Ofangreindar breytingar hafa í för með sér lækkun rekstrarframlaga til ákveðinna hjúkrunarheimila um tugi milljóna króna árið 2019. Það er alveg ljóst að það er mjög erfitt fyrir heimilin að halda uppi sama þjónustustigi í hjúkrunar- og læknaþjónustu miðað við óbreyttar aðstæður. Við þessu þarf að bregðast.