149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[16:42]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland kærlega fyrir þetta skýra og greinargóða svar. Mig langar að hvetja hv. þingmann, af því að nú er Flokkur fólksins ekki lengur með fulltrúa í umhverfis- og samgöngunefnd, til að skoða og kynna sér vel breytingartillögu minni hluta nefndarinnar, sem lýtur að því að þær framkvæmdir sem ætlunin er að flýta — sem eru nauðsynlegar framkvæmdir, við erum öll meðvituð um að það verður að fara í nauðsynlegar framkvæmdir til að tryggja öryggi okkar — verði greiddar úr okkar sameiginlegu sjóðum með skattpeningum, þannig að þeir sem geta greitt meira borgi meira, eins og við reynum a.m.k. að hafa tekjuskattskerfið okkar.

Við erum líka með tillögur um að stórefla almenningssamgöngur, bæði á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannasveitarfélögum, og að þeir sem þurfa að nota þær daglega fái þær verulega niðurgreiddar, þ.e. að þeir sem þurfa að sækja vinnu og nám og heilbrigðisþjónustu fái greiðan aðgang í gott kerfi, ekki þannig að þeir þurfi að bíða allan daginn eftir farinu heldur að við förum raunverulega í að búa til alvörualmenningssamgöngukerfi sem styður bæði við þá efnaminni en er líka raunverulegt val fyrir fjölskyldur, barnmargar fjölskyldur, og fyrir þá sem eru að hugsa um loftslagið.

Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér þessar tillögur og er tilbúin til þess að ræða við hana utan þingstóls hvenær sem er. En er þetta eitthvað sem hv. þingmaður gæti hugsað sér að styðja?