149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[21:42]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er ljóst að við deilum þeirri sýn að þetta sé ekki skilið í sundur, þ.e. að klára þessi mál með framtíðarstaðsetningu flugvallarins og leysa úr þeim fjölda úrlausnarefna sem stjórnvöld standa frammi fyrir á næstu árum og áratugum. Það er alveg í lagi að velta fyrir sér þeirri sátt sem gerð var í góðri trú af öllum aðilum, óháð því hvaða skoðun þeir hefðu á staðsetningu flugvallar í hjarta Reykjavíkurborgar. Þar létu menn ráða för sameiginlega sýn á það að innanlandsflugið þyrfti að vera tryggt, tenging við Reykjavík, af mörgum ástæðum. En ég spyr hvort það orðalag að hann yrði þar þar til sátt næðist hafi mögulega gert illt verra og gert það að verkum að menn setjast niður og segja: Við finnum ekki sáttina, flugvöllurinn er bara hér. Ég nefni dæmi sem hræða og nærtækt er hið eilífa ágreiningsefni um staðsetningu á nýrri Landspítalabyggingu.

Mig langar aðeins að velta öðru upp og það tengist þessu: Við getum ekki rætt samgöngumál án þess að ræða loftslagsmál og umhverfismál. Þetta er samofið. Algerlega. Við munum ekki gera annað vel og hitt illa. Það er bara þannig. Og af því að hv. þingmaður sjálfur tilheyrir flokki sem hefur látið mikið til sín taka í þessum málum og stýrir ferðinni í ríkisstjórn, með metnaðarfulla loftslagsáætlun, spyr ég: Stingur sú sýn að vera borg með flugvöll þar sem miðjan er þéttust ekkert í stúf við metnaðarfull markmið í loftslagsmálum? Er þetta ekkert sem menn staldra við og segja: Við ættum kannski líka aðeins að huga að þessu? Þetta fer ekki alveg saman. Er þetta ekkert rætt í því samhengi?