149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

staða iðnnáms.

[10:50]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar. Það kom reyndar ekki fram í því hvort hún hyggist gera eitthvað til að létta iðnnemum lífið. Fyrst þannig hefur verið búið um hnútana að kennaranemar, góðu heilli, hafi aðgang að launuðu starfsnámi leiðir það hugann að jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Þegar einn nemendahópur er tekinn út úr, eins og þarna virðist hafa verið gert, hljóta menn að spyrja sig hvort aðrir námshópar, svo sem eins og iðnnemar, geti ekki gengið að sambærilegu eða treyst á að innan skamms tíma verði það svo. Ég legg t.d. sérstaka áherslu á járniðnað þar sem okkur skortir sárlega fólk. Ég held að ekki hafi verið útskrifaður plötusmiður á Íslandi í 30 ár. Við þurfum að flytja inn fólk til að vinna þessa vinnu fyrir okkur, pípara o.fl.

Ég ítreka þá spurningu mína til ráðherra hvort hún hyggist beita sér fyrir því að gerð verði gangskör að því að iðnnemar geti gengið að launuðu námi vísu.