149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[15:03]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir orð hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur um að það sé nauðsynlegt að fara í þessar vegabætur á Kjalarnesi vegna þess að þar eru vegfarendur einmitt í stórhættu. Við í Samfylkingunni leggjumst ekki á móti góðum tillögum, munum ekki kalla það popúlískt að ætla að reyna að auka öryggi vegfarenda á vegum úti og leggja í það fé vegna þess að það kostar fé. Það kostar mikið fé að tryggja ekki öryggi, slysin kosta okkur 40–60 milljarða á hverju einasta ári og það er á okkar ábyrgð að reyna að tryggja vegfarendur og líka að fara vel með það fé sem okkur er gert að ráðstafa.