149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

málefni aldraðra.

[15:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég vil segja í fyrsta lagi að eftir að hafa gegnt embætti heilbrigðisráðherra í ríflega 14 mánuði hef ég dregið út úr nokkur mál sem mér finnst ítrekað koma fram að sé ekki nægilega skýrt fyrir komið í íslenskri heilbrigðisþjónustu og þar er m.a. heilbrigðisþjónusta við aldraða. Af þeim sökum hef ég sett það mál sem sérstakt forgangsmál á yfirstandandi ári, á árinu 2019, og hef nú þegar átt fundi með lykilaðilum í heilbrigðisþjónustu við aldraða. Næsti fundur sem ég mun halda verður með þeim sem best þekkja til í forvarnamálum þegar aldraðir eru annars vegar.

Hv. þingmaður fer víða í fyrirspurn sinni og ræðir um vannæringarmál sem snúast að hluta um forvarnamál og í raun um heilsuvernd aldraðra, sem við þurfum að leggja miklu meiri áherslu á. Hv. þingmaður spyr líka um hjúkrunarrými og þar gefum við verulega í. Við erum að fjölga hjúkrunarrýmum og bara á þessu ári fjölgum við hjúkrunarrýmum um hátt í 200. Þar eru því stigin stór skref. Fjölgun dagdvalarrýma hefur líka verið á dagskrá og þeim hefur þegar verið fjölgað, bæði á höfuðborgarsvæðinu, norður í Eyjafirði og víðar.

Af því að hv. þingmaður beinir sjónum sínum sérstaklega að efnaminna fólki sem er aldrað vil ég geta þess að til viðbótar hefur verið tekin sú ákvörðun frá síðustu áramótum að komugjald í heilsugæslunni verði fellt niður. Það á því ekki að vera hindrun fyrir neina manneskju að hafa ekki efni á því að hitta heilbrigðisstarfsfólk. Það er því verið að gera fjölmargt í þeim málaflokki.