149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

nýting fjármuna í væntanlegum þjóðarsjóði.

[15:35]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég kem hingað upp til að forvitnast um mál við hæstv. forsætisráðherra sem snýr að svokölluðum þjóðarsjóði og fjármögnun hinna ýmsu verkefna sem menn telja mikilvæg hverju sinni. Ég ætla að byrja á að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa upp tvær greinar úr frumvarpi fjármálaráðherra um þjóðarsjóð sem fyrst segir í 5. gr.:

„Veita skal framlög til Þjóðarsjóðs sem eru jafnhá öllum tekjum sem ríkissjóður hefur haft af arðgreiðslum, leigutekjum og öðrum tekjum vegna nýtingar orkuauðlinda á forræði ríkisins frá orkufyrirtækjum á næstliðnu ári …“

Síðan segir í ákvæði til bráðabirgða:

„Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. um framlög til Þjóðarsjóðs skulu árleg framlög til hans vera allt að 16 milljörðum kr. lægri á tímabilinu 2020–2024 en tekjur ríkissjóðs vegna nýtingar orkuauðlinda á forræði ríkisins frá orkufyrirtækjum á sama tímabili í því skyni að gera ríkissjóði kleift að fjármagna annars vegar frekari stuðning við sérstakt átak í uppbyggingu hjúkrunar- og dagdvalarrýma, sem nemi allt að 6 milljörðum kr. á tímabilinu 2020–2022, og hins vegar tímabundinn stuðning við nýsköpunarmál, sem nemi allt að 10 milljörðum kr. á tímabilinu 2020–2024.“

Þetta er auðvitað ekki fyrsta skiptið sem tveir ráðherrar vilja nota sömu milljarðana. Þannig er mál með vexti að hæstv. fjármálaráðherra leggur þetta svona fram í frumvarpi sínu og síðan gerðist það að þann 10. febrúar sl. lýsir hæstv. samgönguráðherra því yfir að hann telji skynsamlegt að nýta fjármuni úr þjóðarsjóðnum ætlaða til uppbyggingar samgöngumannvirkja.

Mig fýsir að heyra hver sjónarmið hæstv. forsætisráðherra eru til þeirra sjónarmiða hæstv. samgönguráðherra og hvernig hún sjái fyrir sér að málinu vindi fram.