149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

valkvæður viðauki við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

367. mál
[17:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Hæstv. forseti. Ég verð að vera alveg hreinskilin að þetta svar hæstv. dómsmálaráðherra fyllir mig alveg óendanlegri depurð og ég vil þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir að hafa komið hingað upp og vakið athygli á því að við greiðum atkvæði hér og segjum já eins og hæstv. ráðherra gerði á sínum tíma og varðandi þingsályktunartillögur þarf að greiða atkvæði samkvæmt okkar eigin samvisku. Þetta er ekki einhver skiptimynt. Það er ekki hægt að senda þessi skilaboð út í umhverfið og veröldina t.d. inn í heim fatlaðs fólks. Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á þetta. Það er engan veginn hægt. Ég skil ekki svona nálgun, að þetta plagg sé bara einhver skiptimynt. Það er með ólíkindum þegar við horfum á að þetta var samþykkt samhljóða hér á þingi. Halda menn virkilega að Öryrkjabandalagið eða Þroskahjálp séu bara að leika sér að því að ýta undir að þetta verði samþykkt, að þessi valkvæði viðauki við samning Sameinuðu þjóðanna fyrir réttindi fatlaðs fólks verði fullgiltur? Að sjálfsögðu ekki. Þó að ekki kæmu til nema eitt eða tvö tilvik sem myndi hugsanlega reyna á þennan samning þá skiptir það máli fyrir nákvæmlega þá einstaklinga sem eru að leita að vissu leyti skjóls hjá réttarríkinu Íslandi. Það er bara þannig.

Þessi svör eru ekki boðleg. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það er ekki hægt að koma svona fram. Ég trúi því ekki, ég vil ekki trúa því að þetta sé viðhorf Sjálfstæðisflokksins. Ég neita að horfast í augu við það.

Við erum búin að fá viðhorf Vinstri grænna og ég þakka fyrir það. Ég trúi ekki heldur að þetta sé viðhorf sem Framsóknarflokkurinn vill leggja nafn sitt við.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að endurskoða afstöðu sína og koma hingað með inn í þingið þingsályktunartillögu þar sem við fullgildum þennan viðauka sem eykur réttindi fatlaðs fólks. Við eigum ekkert að óttast það.