149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

Landssímahúsið við Austurvöll.

538. mál
[17:31]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er rétt að við ræðum grafalvarlegt mál. Skipulagsmál eru eitt af mínum uppáhaldsmálum og verður að segjast eins og er að þegar um skipulagsmál er að ræða verður allt miklu einfaldara ef við hefðum bara autt blað. Það er alltaf bölvað vesen þegar verið er að skipuleggja inni í byggð með alls konar húsum og sögu, menningarminjum og fleiru. Hlutirnir verða einhvern veginn miklu flóknari.

Ég hef þess vegna skilning á því sjónarmiði tillöguflytjenda að þeim finnist kannski full nærri þinghúsinu gengið í þeim efnum að reisa þar hótel. En þarna úti stendur í dag, virðulegur forseti, mikið sár. Þetta er mikið lýti á miðbænum og því svæði. Ég velti fyrir mér hversu langt tillöguflytjendur vilji ganga í þeim efnum.

Eins og bent hefur verið á yrði það umtalsverður kostnaður fyrir ríkissjóð að ganga inn í þetta verkefni og kaupa reitinn og byggingarleyfið sem þar er. En það eitt og sér væri ekki nóg, því að hvað vilja tillöguflytjendur þá sjá þarna? Væntanlega viljum við ekki það sár sem er þar í dag. Þá þyrfti að ráðast í annars konar framkvæmdir á reitnum, hvort sem það væri skrúðgarður eða hvað það er sem tillöguflytjendur myndu vilja sjá.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst reyndar þessi reitur hafa verið ansi ljótur í langan tíma, löngu áður en farið var í að brjóta þar og grafa. Landssímahúsið sjálft fannst mér ekki fallegt og enginn sérstakur sómi var að bílastæðum þarna nálægt þinghúsinu.

Ég verð að viðurkenna að ef ég á að velja á milli þess sem var og þess sem sést núna í tillögum þeirra sem hafa rétt til að byggja á svæðinu hugnast mér það þó skár. Reyndar í ljósi þeirrar umræðu sem skapaðist áðan um að eðlilegt væri að hafa eitthvert stærra rými í kringum þinghúsið, þá gætu verið í því einhvers konar öryggissjónarmið. Það gæti líka verið einhvers konar virðing við þjóðþingið og bygginguna að eðlilegt væri að þjóðþingið hefði skipulagsvald og hefði yfir að ráða stærri lóð. Þá velti ég því hreinlega fyrir mér hvort við eigum ekki bara að selja þetta hús og reisa nýtt hús annars staðar. Mér dettur í hug lóð í Mosfellsbæ þar sem væri fínt að byggja fallegt þinghús, við höfum fallega náttúru þar og gætum ráðið yfir mun stærra rými en hér er.

En ég verð að segja að þrátt fyrir að ég hafi kannski einhvern skilning á því sjónarmiði að mörgum finnist gengið ansi nærri þjóðþinginu með þeirri uppbyggingu þarna er, er svo auðvelt að benda á önnur dæmi hér í kring þar sem eru bæði veitingastaðir og hótel. Ég sé það seint gerast að við munum einhvern tímann forgangsraða fjármunum í að kaupa upp byggingar allt í kringum þinghúsið til að búa til stærra rými. Mér þykir sú hugmynd nokkuð galin og sé ekki tilganginn með því.

Þá verður eiginlega að velta fyrir sér: Er það alslæmt að hafa hótel á umræddu svæði þegar hótel og barir eru hér allt í kring? Ég get alveg fallist á að mér finnst Austurvöllur ekkert ofboðslega fallegt svæði og ég myndi gjarnan vilja sjá opnum svæðum í borginni betur haldið við og meiri fegurð yrði í kringum þetta svæði.

Ég held reyndar að sú uppbygging sem þarna er sé kannski einmitt til þess fallin, að þarna muni þá rísa nýtt og fallegt hús. Ég hygg að þeir sem það reisa, ætlandi sér að selja ferðamönnum gistingu, leggi allan metnað sinn í það að umhverfið verði sem glæsilegast. Það getur að sjálfsögðu bara unnið með skipulagi í miðbænum.

Hvað kirkjugarðinn varðar held ég að full ástæða sé til, í ljósi þess að við ræðum oft um þéttingu byggðar og það er einmitt það sem er að gerast í miðborg Reykjavíkur, að við ræðum líka þéttingu kirkjugarðabyggðar. Til framtíðar litið held ég að ástæða sé til að horfa til þess að fara aðrar leiðir en við höfum farið hingað til þegar kemur að kirkjugörðum; auka frelsi fólks til að velja hvaða leiðir það fer, hvort sem það er brennsla eða hefðbundin jarðsetning. Þá má velta fyrir sér hvernig hægt er að jarðsetja duftker eða setja upp einhvers konar grafhýsi eins og þekkjast víða í þéttari byggðum eða auka frelsi til að dreifa ösku eða gera eitthvað annað. Það er aldrei að vita nema sú sem hér stendur muni koma fram með einhverjar tillögur í þeim efnum.

Þótt ég hafi ákveðinn skilning á sjónarmiðinu sem hér er uppi get ég seint fallist á að það eigi að vera forgangsverkefni hjá ríkissjóði að ganga inn í framkvæmdir sem hér eru þegar hafnar með þeim tilkostnaði sem af því hlýst. Ég velti líka fyrir mér: Hver er framtíðarsýnin fyrir reitinn í staðinn? Hvað á ríkissjóður að ganga langt í því að byggja þarna eða halda í heiðri kirkjugarðinum með einhverjum hætti? Á Alþingi að eiga þann reit og sjá um hann til langrar framtíðar? Hvað er það sem tillöguflytjendur vilja í þeim efnum?