149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

staðan á vinnumarkaði.

[13:56]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. félags- og barnamálaráðherra um stöðuna á vinnumarkaði og ábyrgð stjórnvalda gagnvart henni. Ég veit að hæstv. félags- og barnamálaráðherra er mér sammála um nauðsyn þess að tryggja jöfn kjör og réttlæti gagnvart öllum þjóðfélagshópum þegar kemur að lífskjörum þeirra. Mig langar að vitna í orð ráðherrans í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í október sl., með leyfi forseta:

„Nú hafa margir á tilfinningunni að í gangi sé launaskrið hjá efstu lögum samfélagsins og að skilja eigi eftir bæði millistéttina og lægri tekjuhópa. Já, það er þyngra en tárum taki að til séu börn í þessu landi sem geta ekki stundað tómstundir, geti ekki haldið fermingarveislur og fleira sökum lágra tekna foreldra sinna. Þegar slíkar sviðsmyndir finnast enn er verk að vinna.“

Í þeim kjaraviðræðum sem staðið hafa yfir síðustu mánuðina hefur hæsta ákallið verið um að hækka lágmarkslaun, minnka bilið á milli hærri og lægri tekjuhópa og tryggja öllum sem hér búa viðunandi kjör. Þetta snýst reyndar um mun meira en tómstundir og fermingarveislur, þetta snýst um að hér á landi þurfi enginn að búa við fátækt og skort.

Ég spyr því: Finnst hæstv. ráðherra að ríkisstjórnin hafi lagt nóg af mörkum til að liðka fyrir kjaraviðræðum til að tryggja aukinn jöfnuð efri stétta og lægri tekjuhópa og að hér búi enginn við fátækt og skort?

Þá er ljóst af breyttum titli ráðherra að hæstv. félags- og barnamálaráðherra ber sérstaklega að halda á lofti í málefnum barna og styð ég hann í þeirri áherslubreytingu. En liður í því að tryggja aukna velferð barna hlýtur að vera að tryggja einnig velferð foreldra.

Mig langar því að spyrja ráðherra hvaða áhrif hann telji það hafa á framtíðartækifæri og vellíðan barna þegar foreldrar verja verðmætum tíma sínum, tíma frá börnum sínum, í oft heilsuspillandi láglaunastrit og ná ekki einu sinni endum saman, að geta ekki einu sinni séð almennilega fyrir fjölskyldu sinni. Hvaða áhrif hefur þetta ástand á þennan mikilvæga málaflokk hæstv. ráðherra?