149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:26]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og lögum um gjaldeyrismál, svokölluð aflandskrónulosun og bindingarskylda á fjármagnsinnstreymi.

Það er margt við frumvarpið að athuga og við sjáum til hvort mér endist tími í fyrstu ræðu minni til að fara yfir allt. En fyrst vil ég koma inn á það atriði sem snýr að tímarammanum sem okkur er veittur í dag.

Það er ekki eins og þessi gjalddagi, eindagi, 26. febrúar, á tilteknum ríkisbréfaflokki hafi verið skilgreindur nýlega. Það hefur lengi legið fyrir að daginn í dag, 26. febrúar, bæri einmitt upp í dag. Hér er lagt mikið upp úr því að málið þurfi að klárast í dag af því að miklir hagsmunir þjóðarinnar séu undir. Það sem viðhaft er sem rökstuðningur í dag minnir mann á margar þær varnarræður sem haldnar voru af stuðningsmönnum Icesave-samninganna forðum.

Ef við setjum það í samhengi afgreiddi meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar frá sér nefndarálitið þann 21. febrúar sl. Þar skrifa undir þrír fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og síðan fulltrúar aamfylkingarflokkanna allra. Þetta var síðasta fimmtudag. Á föstudag var ekki þingfundur. Þá var felldur niður þingfundur vegna vetrarleyfa á höfuðborgarsvæðinu, ef ég skildi það rétt. Á laugardaginn var enginn fundur. Á sunnudaginn var enginn þingfundur. Í gær, mánudag, var enginn þingfundur. Þetta mál kom til umræðu að ganga fjögur í dag, þriðjudaginn 26. febrúar 2019, og notuð eru sem sérstök rök í málinu að það verði að klárast „med det samme“, annars fari allt til fjandans.

Það er þannig að markaðir loka hvað svona viðskipti varðar á bilinu þrjú til fjögur, þannig að það var ekki rétt nema framsöguræðan sem kláraðist innan þess tíma sem þeir voru opnir. Þetta heldur auðvitað ekki neinu vatni og við eigum ekki að láta bjóða okkur upp á svona vitleysu.

Það eina sem gerist ef þetta mál klárast ekki í dag er að aflandskrónueigendurnir, sem eiga þennan 3,1% stabba, eiga hann áfram á morgun og hinn og hinn og hinn, rétt eins og ef málið hefði klárast. Það er því engin tímapressa, engir stórkostlegir hagsmunir undir eins og hv. þm. Smári McCarthy hélt fram í dag og hefur póstað að því er virðist mjög rækilega á vegg sínum á Facebook með áframhaldandi dylgjum í garð formanns Miðflokksins, sem eru eins ómerkilegar og við er að búast.

Ég vildi afgreiða málið sem snýr að tímarammanum á þennan hátt. Það er algjörlega fráleit framganga að bjóða okkur upp á að umræðan byrji svona seint og að það eigi að klára tvær umræður. Það átti að slíta fundi á milli. Fyrri umræðan dagsins, 2. umr. um frumvarpið, hófst rúmlega þrjú. Klukkan var þá að ganga fjögur á markaði og allir hinir ágætu fjárfestar, sem menn kikna í hnjánum gagnvart, áttu að vera búnir að kaupa sér nýja pappíra fyrir lokun þeirra í dag. En við skulum ýta þeim hluta málsins til hliðar, í guðanna bænum. Þetta heldur ekki nokkru vatni.

Það sem mér finnst alvarlegast í málinu eru skilaboðin sem felast í því að menn gefist upp sýknt og heilagt, lyppist niður ef andstæðingurinn ber nógu hart í borðið. Það er búinn að vera stöðugur flótti gagnvart samskiptum við eigendur aflandskrónanna síðan um mitt ár 2016. Menn hafa gefið meira og meira eftir og auðvitað eru þeir aðilar sem stýra sjóðunum og eigendurnir engir bjánar, þeir sjá þetta: Heyrðu, hinir öflugu menn sem verja hagsmuni íslensku þjóðarinnar lyppuðust niður út af þessu. Tökum einn hring enn, einn snúning enn, og sjáum hverju við náum fram.

Svo auglýsir Seðlabankinn fleiri og fleiri tilboð til handa sömu aðilum og alltaf hugsa þeir: Leyfum þeim að senda okkur eitt tilboð í viðbót.

Núna í byrjun árs 2019 virðast menn hafa lagt skottið algerlega niður og þeir kröfuhafar, þeir krónueigendur sem erfiðastir voru íslenskum hagsmunum, sem harðast gengu fram þegar við áttum hvað erfiðast sjálf, vinna fullnaðarsigur. Það er ekki þannig að við höfum einhverja stöðu að verja, þeir höfðu allt sitt fram.

Hvað varðar allt tal um vaxtaleysi á þeim tíma má segja að þótt hluti tímans sé vaxtalaus eru vegnir vextir yfir þann tíma sem ástandið hefur varað þannig að þeim sömu fjárfestum hefði sennilega hvergi staðið til boða í hinum vestræna heimi viðlíka tryggir pappírar.

Skilaboðin sem menn senda með því eru þeirrar gerðar að allir taka eftir þeim. Auðvitað sitja menn núna og brosa út í annað og hugsa með sér: Við hefðum ekki þurft að eiga svona marga fundi með Íslendingum út af frystiskyldu á kjöti, þeir hefðu lyppast niður hvort sem var.

Það verður forvitnilegt að skoða í kjölfar þessa alls hvað hefur raunverulega verið gert í þeim erfiðu málum sem við höfum verið að slást í undanfarin ár, t.d. því er snýr að innflutningi á ófrosnu kjöti. Eru menn raunverulega búnir að taka þá slagi sem hægt væri að taka? Eru menn raunverulega búnir að reyna allt sem hægt er? Sagan sem allar fréttirnar og þetta frumvarp sem liggur fyrir í dag segir er þeirrar gerðar að manni dettur eiginlega ekki til hugar að trúa því að okkar ágætu fulltrúar hafi raunverulega staðið í lappirnar, því að svo sannarlega gera þeir það ekki í málinu sem snýr að aflandskrónum.

Þegar sagan er tekin saman á svona skýran hátt, eins og er frá miðju ári 2016 til byrjunar árs 2019, þar sem menn lyppast niður í hverjum átökunum á fætur öðrum, sífellt er sent aðeins betra tilboð til mótaðilanna, þá ganga menn auðvitað á lagið. Þetta eru skilaboðin sem er verið að senda í dag. Andstæðingar okkar, aðilar sem eru andstæðir hagsmunum íslensku þjóðarinnar, munu treysta á að menn lyppist niður hér eftir sem hingað til. Það verður gríðarlegt tjón af slíku. Ég held að það tjón sem felst í slíkri merkjasendingu, að menn séu alltaf tilbúnir að gefa eftir, sé mögulega miklu meira en í þeim krónum og aurum og milljörðum sem tapast með þeirri útfærslu sem viðhöfð er í málinu eins og það liggur fyrir núna.

Það er eitt og annað sem kemur fram í frumvarpinu annars vegar og greinargerðinni hins vegar sem rétt er að gera athugasemdir við. Svo að ég komi aðeins inn á það áhyggjuatriði manna aftur að málið verði að klárast í dag, annars sé mikil vá fyrir dyrum, þá segir, með leyfi forseta, neðarlega á fyrstu síðu nefndarálitsins:

„Í umsögninni segir: „Við það eykst hætta“ — sem sagt ef málið klárast ekki fyrir lok dags — „á að stórir aflandskrónueigendur, sem átt hafa sín bréf í samfelldu eignarhaldi frá því fyrir höft og taldir hafa verið líklegir til að endurfjárfesta í íslenskum skuldabréfum þegar þeirra bréf koma á gjalddaga þann 26. febrúar muni í stað þess leita út þegar þeir losna af bundnum reikningum.““

Það er verið að segja að stórkostleg hætta, stórkostleg vá sé fyrir dyrum ef þau atriði klárist ekki í dag. Það verður að segjast að ríkisstjórnarflokkarnir og forseti Alþingis hafa haft það í hendi sér að hafa þetta mál á dagskrá miklum mun fyrr og nefndin hefði eflaust afgreitt það fyrr ef fram hefði komið krafa um slíkt. En ekkert mun gerast að þessum degi liðnum annað en það að krónueigendurnir munu eiga haftakrónur sínar á morgun, rétt eins og þeir eiga þær í dag. Það verður ekki vegna lágra vaxta sem þeir munu yfirgefa svæðið með sína peninga.

Það er alveg ótrúleg staða að menn horfi upp á það vaxtastig sem enn er viðhaldið á Íslandi í kólnandi hagkerfi. Ef við berum það saman við löndin í kringum okkur þar sem stýrivextir eru gegnumgangandi í námunda við núll þá upplifa erlendir fjárfestar hvergi viðlíka gósentíð og hér er. Horfandi á sterkt innflæði þrátt fyrir tímabundið hökt í ferðaþjónustunni og öflugan sjávarútveg og öfluga gjaldeyrissköpun er það eins og að vera umvafinn bómull að vera fastur í íslensku vaxtaumhverfi. Það eru góðar líkur á því að þeir vilji njóta þess enn um sinn.

Því er haldið fram í einhvers lags hótanastíl í framhaldi af þeirri málsgrein sem ég las upp áðan að áhrif af þessu verði í fyrsta lagi þau að Seðlabankinn muni þurfa að eyða miklum mun meiri forða til að koma í veg fyrir gengisfall í tengslum við losun aflandskróna.

Ég minni aftur á Icesave-hótanirnar og allan þann bölmóð sem þeim fylgdu og bið þingheim, og vona að einhverjir séu að hlusta á umræðuna í sjónvörpum á skrifstofum sínum, annars eru það bara þingmenn Miðflokksins og einn Pírati sem heyra til, í lengstu lög að fara ekki á taugum út af þessari dagsetningu.

Í málinu öllu, sem er endapunkturinn á þeim stóru og fordæmalausu aðgerðum sem gengið var til og rammaðar voru inn árið 2015, hefur niðurlag aðgerðanna, eða lokahlutinn, gengið afskaplega snautlega, því miður. Árangur aðgerðanna hefur verið ævintýralegur. Það er þyngra en tárum taki að menn virðast vera búnir að sannfæra sig um að nú sé komið nóg, að aðgerðirnar hafi gengið svo vel, þær séu búnar að skila svo miklum fjármunum í ríkissjóð, íslenskt efnahagslíf sé orðið svo sterkt, að ekkert þjóðfélag, enginn efnahagur hafi náð viðlíka viðsnúningi og viðspyrnu síðan fjármálahrunið gekk yfir hinn vestræna heim árið 2008 og hið íslenska þjóðfélag og nú sé þetta allt saman búið að ganga svo vel að við skulum bara sleppa lokakaflanum.

Það má vera að ég hafi rangt eftir en einhvers staðar sá ég eða las að síðustu tvö skrefin væru hættulegust lífi línudansaranna. Þá héldu menn að leikurinn væri búinn og þeir væru komnir í örugga höfn, en það er ekki þannig. Þegar menn setja upp plan sem á að ganga fram með ákveðnum hætti og það er algjörlega óumdeilt og gekk ævintýralega vel framan af, eiga menn auðvitað að fylgja því og klára það, sérstaklega þegar hagsmunir ríkissjóðs eru algerlega augljósir í því að gera eins og lagt var upp með.

Við erum ekki í þeirri stöðu að mega gefa frá okkur jafnvel milljarðatugi, bara af því að okkur þykir nóg komið. Við getum haft ágætisnot af þeim peningum, hvort sem er til innviðauppbyggingar, til velferðarkerfisins eða niðurgreiðslu skulda. Við getum notað þá alla. Við eigum ekki að gefa eftir og við eigum ekki að senda þau skilaboð út gagnvart síðari tíma hagsmunagæslu stjórnvalda, hvert sem málið kann að vera, að við lyppumst niður á seinni hlutanum, því að þá mun enginn gefa eftir. Það mun enginn taka tiltali og það mun enginn setjast niður og semja við okkur í byrjun hér eftir ef menn vita að hagsmunagæsluaðilar íslensku þjóðarinnar lyppast niður í lokin. Það eru skilaboð sem við megum ekki senda út. Þó að menn séu komnir áleiðis með það í þessu máli er ekki of seint að stoppa það og við eigum að gera það.

Við eigum eftir að lenda í málum sem eru miklu umfangsmeiri en síðasti hluti haftalosunarinnar hvað varðar hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd. Þá er ég að tala um þingið sjálft og ríkisstjórnina hverju sinni. Við eigum eftir að lenda í miklu stærri málum. Við verðum að sýna að við höfum staðfestu til þess að klára mál og fylgja þeim eftir til enda, að við höfum þor og dug en lyppumst ekki niður þegar hart er tekið á móti.

Ég ætla að láta þetta duga í fyrstu ræðu minni, svona upp á samhengi hlutanna, en bið forseta að setja mig aftur á mælendaskrá þótt aðeins sé eftir af ræðutíma mínum núna.