149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

lengd þingfundar.

[19:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Nú hefur forseti boðað að við greiðum atkvæði um lengd þingfundar sem maður veltir fyrir sér hvort ástæða sé til. Klukkan er ekki orðin átta og fullt leyfi til að vera til miðnættis án þess að þurfa að greiða atkvæði um það sérstaklega að vera til miðnættis. Forseti hlýtur þá að ætla að vera hér eitthvað lengur en til miðnættis sem er hið ágætasta mál. Það gefur þingmönnum færi á að koma í ræðustól og tjá sig um málið. Ef það er svona mikilvægt og merkilegt hljóta menn að færa rök fyrir því hvers vegna þarf að samþykkja það í þessum flýti.

Ekki einn einasti maður hefur reynt að færa fyrir því rök í þessum ræðustól. Ég hlakka mjög til að vera hér áfram og hlusta á þau rök sem hljóta einhver að vera og ég geri ráð fyrir að hv. þingflokksformaður Vinstri grænna komi í ræðu og útskýri það frekar en að kalla fram í.

Miðflokkurinn mun styðja lengingu þingfundar (Forseti hringir.) heils hugar.