149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[20:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Það hefur þegar komið fram hjá Seðlabankanum að hann telji að þetta séu slíkar upphæðir að þær geti haft áhrif á gengi krónunnar. Hins vegar, eins og hv. þingmaður nefndi líka, telur Seðlabankinn sig í stakk búinn til að grípa þar inn í með gjaldeyrisvaraforða sínum. Þá er spurningin: Hver verður endanlegur kostnaður af því?

Í því samhengi er sérstök athugasemd Seðlabankans svolítið áhyggjuefni þar sem hann lýsir því yfir að þetta frumvarp hefði átt að samþykkjast í síðasta lagi í gær, áður en dagurinn í dag rynni upp, í þeirri von að menn myndu þá vera líklegri til að fjárfesta áfram í ríkisskuldabréfum. Menn sem væru búnir að vera hér fastir í tíu ár myndu þá stökkva til og kaupa ríkisskuldabréf áfram. Þetta er nokkuð sérkennilegt á ýmsan hátt en er ekki traustvekjandi. Annaðhvort eru aðstæður orðnar þannig í efnahagslífinu að það er óhætt að aflétta höftum, burt séð frá öllum hinum hliðaráhrifunum, kostnaðinum eða tapinu sem það verður fyrir í ljósi þessarar eftirgjafar, eða ekki. Það getur ekki byggst á einhverjum væntingum um að hugsanlega og vonandi muni menn vilja vera með peninga hér áfram sem hafa setið fastir í höftum í tíu ár.

Einmitt þess vegna tel ég, sérstaklega eftir þessa athugasemd Seðlabankans, mikilvægt að fram fari umræða um hana og þennan skort á skýringum og mikilvægt að halda fund í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég fer hér með fram á það við forseta að það fari fram fundur milli umræðna með seðlabankastjóra og fleirum til að ræða m.a. þetta sem hv. þingmaður spyr um.