149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[21:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og tek heils hugar undir það sem hann sagði hér. Ég veit að hann talar af þekkingu. Hann er doktor í hagfræði og við vorum sessunautar í fjárlaganefnd og ég veit að þar talar maður með mikla þekkingu og reynslu í þessum efnum. Ég þakka honum fyrir að koma svo vel inn á þetta vegna þess að þetta er afar mikilvægt. Það sem meira er, það er ósamræmi í texta í þessari greinargerð.

Hv. þingmaður vitnaði hér í lið 6.3, um áhrif á Seðlabankann og gjaldeyrismarkað, og kom inn á að þetta muni ráðast af því hve stór hluti núverandi aflandskrónueigenda ákveður að skipta umræddum eignum í erlendan gjaldeyri og á hve löngu tímabili viðskiptin eiga sér stað.

En síðan segir hér á bls. 7:

„Gera má ráð fyrir því að aflandskrónueigendur sem geta nýtt sér heimild skv. 2. og 3. tölul. 1. gr. frumvarpsins muni nýta sér þær fljótlega eftir að lögin taka gildi eða þegar þeim verður kunnugt um aukinn rétt sinn til úttektar.“

Þetta er athyglisvert og sýnir að það er ekkert á hreinu af hálfu stjórnarflokkanna, sem leggja þetta frumvarp fram, hvaða áhrif þetta kemur til með að hafa á gjaldeyrinn og stöðu krónunnar. Og þetta ósamræmi undirstrikar það að þessu hefur ekki verið gefinn neinn gaumur sem er mikið áhyggjuefni. Við þekkjum það að krónan, staða hennar, skiptir öllu máli í því sem fram undan er í efnahagsmálum hér á landi og á sama tíma, eins og staðan er núna, á hér að fara að hleypa úr landi 84 milljörðum.